Fólk skoði ekki eldgosið á morgun

Björgunarsveitarmaður með gasgrímu. Ekki er mælt með því að almenningur …
Björgunarsveitarmaður með gasgrímu. Ekki er mælt með því að almenningur skoði eldgosið á morgun, miðað við veðurspána. Ljósmynd/Hreiðar Júlíussson

Miðað við veðurspána á morgun mælir Veðurstofa Íslands ekki með því að fólk leggi leið sína í Geldingadali til að skoða eldgosið.

Svæðið við gosstaðinn hefur verið lokað í dag vegna hættulegrar gasmengunar. 

Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni, á að lægja svolítið á morgun og verður mjög lítill vindur á staðnum. „Það getur verið mjög hættulegt út af gasmengun að vera þarna. Þá eru líkur á að þetta fari að safnast upp í kringum gosstöðvarnar,“ segir hún. Að mestu leyti eru þetta gastegundirnar brennisteinsdíoxíð og koldíoxíð.

„Eins og er, er mikill vindur á staðnum og því gasmengunin ekki alveg staðbundin, en hún getur orðið það í réttum aðstæðum eins og í þeim veðuraðstæðum sem eru spáð seinnipartinn á morgun. Gasmengunin er að öllum líkindum ekki að byggja sig upp í dalnum eins og er, en hún gæti gert það undir réttum aðstæðum,“ segir Bryndís Ýr.

Fólk skoðar eldgosið í gær.
Fólk skoðar eldgosið í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð hvort gasmengunin sé enn yfir hættumörkum núna líkt og í morgun segist hún ekki vita það. Mælingarnar sem byggt var á í morgun komu frá viðbragðsaðilum á svæðinu en ekki Veðurstofunni. Til stóð að senda starfsfólk frá Veðurstofunni á vettvang í dag til að mæla gasið en tvísýnt var hvort af því yrði vegna veðurs.

Á Face­book-síðu Veður­stof­unn­ar er greint frá því að sér­út­bún­ir sér­fræðing­ar fari reglu­lega til að mæla gasstyrk við upp­tök eld­goss­ins svo hægt sé að spá fyr­ir um magn gasmeng­un­ar frá eld­stöðvun­um og til að safna gögn­um til frek­ari rann­sókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert