Miðað við veðurspána á morgun mælir Veðurstofa Íslands ekki með því að fólk leggi leið sína í Geldingadali til að skoða eldgosið.
Svæðið við gosstaðinn hefur verið lokað í dag vegna hættulegrar gasmengunar.
Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni, á að lægja svolítið á morgun og verður mjög lítill vindur á staðnum. „Það getur verið mjög hættulegt út af gasmengun að vera þarna. Þá eru líkur á að þetta fari að safnast upp í kringum gosstöðvarnar,“ segir hún. Að mestu leyti eru þetta gastegundirnar brennisteinsdíoxíð og koldíoxíð.
„Eins og er, er mikill vindur á staðnum og því gasmengunin ekki alveg staðbundin, en hún getur orðið það í réttum aðstæðum eins og í þeim veðuraðstæðum sem eru spáð seinnipartinn á morgun. Gasmengunin er að öllum líkindum ekki að byggja sig upp í dalnum eins og er, en hún gæti gert það undir réttum aðstæðum,“ segir Bryndís Ýr.
Spurð hvort gasmengunin sé enn yfir hættumörkum núna líkt og í morgun segist hún ekki vita það. Mælingarnar sem byggt var á í morgun komu frá viðbragðsaðilum á svæðinu en ekki Veðurstofunni. Til stóð að senda starfsfólk frá Veðurstofunni á vettvang í dag til að mæla gasið en tvísýnt var hvort af því yrði vegna veðurs.
Á Facebook-síðu Veðurstofunnar er greint frá því að sérútbúnir sérfræðingar fari reglulega til að mæla gasstyrk við upptök eldgossins svo hægt sé að spá fyrir um magn gasmengunar frá eldstöðvunum og til að safna gögnum til frekari rannsókna.