Guðni Einarsson
Nokkrir kostir eru í stöðunni varðandi framhald eldgossins í Geldingadölum, að mati dr. Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
„Einn er sá að gosið hætti áður en það fer að renna úr Geldingadölum, annar að það haldi áfram og fylli dalinn. Gígurinn getur stíflað rennslið til vesturs ofan í dalinn. Þá getur það fyllt þessa litlu skvompu sem er austan til og þá er miklu styttra í að hraun renni úr dalnum í Nátthaga eða Merardali ef það þá nær svo langt,“ sagði Magnús Tumi í Morgunblaðinu í dag. „Það verður ekki fyrr en búið er að kortleggja þetta aftur út frá því hvernig hraunið er að byggjast upp sem við sjáum hvort það eru líkur á einhverri breytingu á hraunrennslinu.“
Hann sagði að eldgosið hefði verið rólegt og smátt í sniðum. Hraunrennsli af þessari stærðargráðu geti ekki farið mjög langt. Magnús Tumi sagði að ekki sjáist skýr merki um að dragi úr gosinu og það geti vel haldið áfram nokkurn tíma.
Kvikan sem kemur upp er ekki merki um að kvikugangurinn sé að tæmast. Inn í hann streyma sennilega 5-10 rúmmetrar á sekúndu. Ekki sjást enn sem komið er skýr merki um spennubreytingar í jarðskorpunni eftur að gosið hófst. Á meðan gosrásin er opin og gígarnir virkir eru ekki miklar líkur á að gossprunga opnist annars staðar, að mati Magnúsar Tuma. Ekkert er þó hægt að útiloka það.