Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Landsrétti úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. apríl, en maðurinn er grunaður um frelsissviptingu, ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, hótanir og eignaspjöll.
Ætluð brot mannsins voru framin á rúmlega þriggja og hálfs mánaðar tímabili, eða frá því í lok nóvember á síðasta ári og fram í miðjan mars á þessu ári. Þá hefur viðkomandi stöðu sakbornings í sex öðrum málum, sem eru til meðferðar hjá lögreglu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði fram kröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur sl. fimmtudag um gæsluvarðhald yfir manninum, en henni var hafnað. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar, sem hefur nú snúið honum eins og að framan greinir, segir enn fremur.