Harmar ákvörðun Tyrkja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra harmar ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um forvarnir og ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Samningur sá var undirritaður í Istanbúl, af öllum stöðum, árið 2011 og hefur síðar verið lögfestur í flestum ríkjum Evrópu, þar á meðal á Íslandi árið 2018.

„Með því að segja sig frá Istanbúlsamningnum eru stjórnvöld í Tyrklandi að grafa undan mikilvægum lagagrunni sem tryggir fórnarlömbum ofbeldis réttaröryggi. Það ætti að vera markmið allra Evrópuríkja að efla þennan grunn fremur en draga úr honum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór. Þá lýsti hann einnig vonbrigðum sínum á Twitter á laugardag.

Tyrkland varð árið 2011 fyrsta ríkið til að undirrita samninginn, þegar Erdogan Tyrklandsforseti var forsætisráðherra landsins. Íhaldssamir múslimar í landinu hafa frá upphafi verið gagnrýnir á samninginn sem þeir segja lið í áætlunum Vesturlanda til að vega að hefðbundnu fjölskyldumynstri og hvetja konur til skilnaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert