Nokkuð var um hávaðaútköll í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Mikil kannabislykt var í einni íbúðinni og við húsleit, að fenginni heimild, fundust meðal annars kannabisefni, kókaín og fjaðurhnífur. Einn gestanna viðurkenndi að eiga ofangreint.
Í öðru samkvæmi hafði einn gesta skorið sig á fæti og var hann fluttur með sjúkrabifreið á HSS. Þar voru nokkrir gestir undir 18 ára aldri og var forráðamönnum þeirra og barnaverndarnefnd gert viðvart að því er segir í tilkynningu frá embættinu.
Auk þess að hafa þurft að aðstoða fjölda fólks sem var að heimsækja gosstöðvarnar um helgina þurfti lögreglan að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum sem ekki virtu lokanir vega.
Nær tuttugu ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 137 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Hann er sautján ára og var því jafnframt haft samband við forráðamann hans. Fáeinir voru teknir úr umferð vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur.