Landsmönnum fjölgaði um 1,3%

Íbúum fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ árið 2020.
Íbúum fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ árið 2020. mbl.is/Sigurður Bogi

Mannfjöldi var 368.792 hér á landi 1. janúar á þessu ári. Íbúum fjölgaði um 4.658 miðað við sama dag árið 2020 eða um 1,3%. Alls voru 189.043 karlar og 179.749 konur búsettar hér á landi í upphafi árs.

Körlum fjölgaði um 1,1% en konum um 1,4% að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Hlutfallsleg fjölgun mest á Suðurlandi

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 3.494 fleiri þann 1. janúar 2021 en fyrir ári. Það jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári.

Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 1,8%, eða 555 á síðasta ári. Fólki fjölgaði á Suðurnesjum um 366 einstaklinga (1,3%) og um 78 (1,1%) á Norðurlandi vestra.

Minni hlutfallsleg fólksfjölgun var á Austurlandi (1,0%), Vesturlandi (0,3%) og Norðurlandi eystra (0,04%). Hins vegar fækkaði á Vestfjörðum um 0,1% en hafa verður í huga að árið 2019 fjölgaði þar um 0,7%.

Íbúum fækkaði í 27 af 69 sveitarfélögum

Þann 1. janúar 2021 voru sveitarfélög á Íslandi alls 69 en það er fækkun um þrjú vegna sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar undir nafninu Múlaþing.

Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 133.262 íbúa en Árneshreppur á Ströndum fámennast með 42 íbúa. Alls höfðu 36 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa en í aðeins ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Árið 2020 fækkaði íbúum í 27 af 69 sveitarfélögum landsins og var fækkunin hlutfallslega mest í Reykhólahreppi (9,9%).

Fjölgaði mest í Garðabæ

Af ellefu stærstu sveitarfélögunum með 5.000 íbúa eða fleiri fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ (4,5%), Mosfellsbæ (4,2%) og sveitarfélaginu Árborg (3,9%).

Fjölgun var einnig yfir landsmeðaltali í Akraneskaupsstað (2,2%), Múlaþingi (2,0%) og Reykjavíkurborg (1,6%) en fjölgun var undir landsmeðaltali í Akureyrarbæ (1,0%), Kópavogsbæ (1,0%) og Fjarðabyggð (0,1%).

Af 11 stærstu sveitarfélögunum fækkaði einungis í Hafnarfjarðarkaupstað (-0,9%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert