Niðurstöður eru væntanlegar síðar í dag úr efnagreiningum jarðefnafræðinga hjá Háskóla Íslands. Þær munu væntanlega varpa ljósi á náttúru eldgossins í Geldingadal.
Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, en sýnum var safnað saman um helgina.
„Þetta virðist vera áhugavert allt saman, eins og við er að búast. Það eru 800 ár síðan gaus þarna síðast,“ segir Magnús Tumi og bætir við að það verði fróðlegt að sjá samanburðinn við önnur gos.
Aðspurður segir hann eldgosið vera býsna stöðugt og að enn sem komið er hafi ekkert dregið úr því. Allt sé óbreytt. „Það er ekki að sjá að það hafi dregið neitt úr þessu frá upphafi, sem er algengast. Þetta er öðruvísi gos. Þetta er ekki megineldstöðvargos að koma úr grunnu kvikuhólfi þar sem virknin er langmest fyrst og dettur síðan niður. Þetta er ekki að hegða sér þannig,“ útskýrir hann.
Fólk sem hefur ætlað að skoða eldgosið hefur lent í vandræðum á leiðinni og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út. Magnús Tumi segir allt hafa gerst mjög hratt og leggur hann áherslu á mikilvægi þess að aðgengið, þegar það er leyft, sé sem greiðast.
„Það er skiljanlegt að fólk hafi mikinn áhuga á að sjá þetta og það ber að virða það. Þetta er fallegt en það er vetur og það þarf að tryggja að gangan verði viðráðanleg, því það er stærsta öryggisatriðið núna,“ segir hann og letur fólk til göngu frá Bláa lóninu að eldgosinu því leiðin sé löng þaðan yfir hraun. Leiðin að sunnan sé miklu greiðfærari.
Hann segir mikilvægt að gera aðgengið þannig, hvort sem það er gert með einhvers konar skýringum eða því að koma rútum á staðinn sem flytja fólk áleiðis, að leiðin verði ekki alltof löng sem sé erfitt fyrir marga.
Magnús Tumi segir einnig mikilvægt að fólk fari ekki ofan í dalinn ef gasmengunin er hættuleg. „Svo verður að loka svæðinu með ákveðni, ef veður hægist og gas fer að breiðast út,“ segir hann og bætir við að þetta viti lögreglan.
Fyrst og fremst þurfi aðgengismálin að komast í betra horf. „Menn gátu ekki séð þetta fyrir,“ segir hann og leggur áherslu á að ekki eigi að ásaka fólkið sem hafi farið á staðinn. Björgunarsveitarmenn hafi jafnframt lagt mikið á sig við erfiðar aðstæður.