Ökumaður á ferð um Suðurlandsveg austan við Jökulsárlón á föstudaginn sl. varð fyrir því óhappi að aka á hreindýr sem var á veginum. Dýrið drapst og töluvert tjón varð á bifreiðinni sem þó reyndist ökufær.
Ökumaðurinn var að eigin sögn lemstraður en taldi sig ekki alvarlega meiddan að því er fram kemur á vefsíðu lögreglunnar á Suðurlandi þar sem helstu verkefni dagana 15. til og með 21. mars eru rakin.
Ökumaður bifreiðar sem valt á Þykkvabæjarvegi og stöðvaðist á árbakka Hólsár og að hluta úti í henni slapp vel miðað við aðstæður. Meiðsl hans reyndust minni háttar og var gert að þeim á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Lögregla var kölluð út þriðjudaginn 16. mars eftir að einstaklingur féll af hestbaki við hesthúsahverfið í Reykjadal ofan við Hveragerði. Hinn slasaði var illa áttaður þegar lögregla kom á vettvang og hafði fengið mikið höfuðhögg. Hjálmur hans brotnaði við höggið.
29 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, fjórir voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og þrír kærðir fyrir að nota síma undir stýri.
Þá voru lögreglumenn kallaðir út eftir að fór að gjósa í Geldingadal til að loka Suðurstrandarvegi.