„Já það eru líkur á því og við höfum vitneskju um það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna spurður hvort líkur væru á því að smitaðir einstaklingar hafi verið í fjölmenni í bænum um helgina eða í fermingarveislum.
Fimm smit greindust innanlands í gær og voru þrír þeirra utan sóttkvíar. Þau Þórólfur, Alma Möller landlæknir og Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn sögðu öll á fundinum að blikur væru á lofti varðandi útbreiðslu faraldursins hér á landi.
Dæmi væru um að bylgjur hefðu blossað upp af einungis einu smiti. Af því tilefni væri til skoðunar að herða aðgerðir en Þórólfur var ekki búinn að taka endanlega ákvörðun hvað það varðar.
Þórólfur sagði að ekki væri hægt að líta á stöðuna öðruvísi en nú væri komið upp samfélagslegt smit sem er meira en einstök hópsýking þar sem hægt er að rekja smitin innbyrðis.
Spurður hvort ósamræmi væri í því sem heilbrigðisyfirvöld væru að segja og gera og svo stjórnvöld, til að mynda með því að slaka á aðgerðum á landamærunum, sagðist Þórólfur ekki ætla að leggja dóm á hvað stjórnmálamenn væru að segja. Þeir hefðu frelsi til að túlka fyrirliggjandi gögn en að við þyrftum að vanda okkur eins mikið og hægt er á landamærunum.
Hann taldi að ef ætti að fara að taka mótefnavottorð gild á landamærunum þyrfti að breyta nálgun en skýrði það ekki nánar. Þá sagði hann að hægt væri að hafa betra eftirlit með þeim sem koma til landsins og eiga að vera í sóttkví. Klárt mál sé að einstaklingar hafi rofið sóttkví þvert á reglur.