Blikur eru á lofti og áhyggjuefni hve margir hafa greinst með Covid-19 innanlands utan sóttkvíar. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna en þrír greindust utan sóttkvíar innanlands um helgina.
Þeir sem greindust utan sóttkvíar eru innan sömu fjölskyldu og er uppruni smita ekki þekktur. Áætlað er að á þriðja hundrað þurfi að fara í sóttkví vegna þessara þriggja smita
Sóttvarnalæknir sagði að ef smitum utan sóttkvíar heldur áfram að fjölga næstu daga þurfi vafalítið að leggja til hertar aðgerðir innanlands. Reynslan hafi sýnt að það eina sem dugi til að hefta útbreiðslu eru samfélagslegar aðgerðir.
Þrír liggja inni á Landspítala með virkt kórónuveirusmit og sagði Þórólfur þá alla á miðjum aldri. Líklega væru allir með svokallað breskt afbrigði veirunnar en sóttvarnalæknir telur líklegt að fleiri þurfi innlögn á næstu dögum.
„Við stöndum á krítískum tíma varðandi Covid-19 hér innanlands,“ sagði Þórólfur og bætti við að meiri útbreiðsla gæti verið í uppsiglingu.
Eins og kom fram á mbl.is í gær kom súrálsskipið Taurus Confidence til Reyðarfjarðar frá Sao Luis í Brasilíu. Tíu af 19 skipverjum eru með Covid-19 en Þórólfur býst við að allir um borð séu með virkt smit.