Stefna á opnun Suðurstrandarvegar í kvöld

Fjöldi fólks fylgdist með eldgosinu í gær.
Fjöldi fólks fylgdist með eldgosinu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegagerðin er að vinna í því að opna Suðurstrandarveg þannig að einstefna verður frá Grindavík en tvístefna um veginn að austanverðu. Stefnt er á að opna veginn í kvöld, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Ekki er þó enn búið að setja upp merkingar.

Tvístefnan að austanverðu verður í gildi áður en kemur að svæðinu þar sem vegurinn hefur sprungið vegna jarðskjálfta upp á 5,4 sem varð beint undir honum.

Mat Vegagerðarinnar var að loka veginum vegna sprungunnar. Sökum eldgossins í Geldingadölum á að opna hann aftur með þessum hætti til að auðveldara verður fyrir fólk að ganga að gosstöðvunum.

Fólk á gangi fyrr í dag við Nátthaga.
Fólk á gangi fyrr í dag við Nátthaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Löng og snúin leið 

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, getur fólk þannig keyrt að gosstöðvunum frá Grindavík og farið Krýsuvíkurleiðina heim eða komið hinum megin frá. „Alla vega þannig að menn eiga ekki að þurfa að fara allt svæðið frá Svartsengi og Bláa lóninu sem er langt og snúið yfirferðar,“ segir G. Pétur.

Vegurinn myndi opna frá lokuninni sem er núna og austur að svæði sem almannavarnir meta heppilegastan til að hefja gönguna. Helsta vandamálið er að engin bílastæði eru til staðar og segir G. Pétur að áhyggjur séu yfir því, sérstaklega ef jafnmargir verða á svæðinu í kvöld og í gær.

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Erum ekki ferðaskrifstofa“

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir ólíklegt að hætta sé á gossvæðinu núna af völdum gasmengunar vegna mikils vinds. Hann mælir þó ekki með því að fólk fari þangað í kvöld vegna veðurs.

Slysavarnafélagið Landsbjörg ætlar að setja upp stikur í átt að gossvæðinu fyrir göngufólk. Sumir hafa kvartað yfir lélegu aðgengi að svæðinu. Spurður hvort það hefði átt að setja þær upp fyrir segir Rögnvaldur að um hættusvæði sé að ræða. „Við erum ekki ferðaskrifstofa í eiginlegum skilningi. Það er ekki okkar verkefni að laga göngustíga eða svoleiðis,“ segir hann og nefnir sem dæmi að sumir kvarti yfir því að erfitt geti verið að ganga niður Fimmvörðuháls en almannavarnir skipti sér ekki af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert