Stika svæðið upp að gosstöðvunum

Björgunarfólk ræðir við mann við Nátthaga.
Björgunarfólk ræðir við mann við Nátthaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópar á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar ætla að byrja í dag að stika svæðið frá Suðurstrandarvegi inn í Nátthagakrika upp að Geldingadölum.

Að sögn Arnars Steins Elíssonar, aðgerðastjórnanda hjá Landsbjörg, er gönguleiðin líklega um 2,5 kílómetra löng.

Haft hefur verið samband bæði við Almannavarnir og lögregluna um að merkja gönguleiðina að gossvæðinu betur og verið er að bregðast við þeim óskum.

Eins og staðan er núna er hægt að keyra að bænum Hrauni og labba þaðan eins og gert var í gær. Suðurstrandarvegur er enn lokaður.

Fólk á ferli við Nátthaga í morgun.
Fólk á ferli við Nátthaga í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvenær verkefninu lýkur kveðst hann ekki vita það en segir þetta vera verkefni dagsins og að enginn tímarammi sé tilbúinn, enda er svæðið lokað sem stendur og varað við því að fólk sé á ferli sökum gasmengunar.  Björgunarsveitarmenn eru með mannskap á svæðinu og hafa vísað fólki frá það sem af er degi. Arnar Steinn bætir við að landið er eignarland og allur utanvegaakstur, til dæmis á mótorhjólum og fjórhjólum, sé lögbrot.

Bíl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar við Nátthaga.
Bíl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar við Nátthaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort það hefði mátt setja upp stikur fyrr, miðað við vandræðin sem fólk lenti í á leið sinni bæði til og frá gossvæðinu í gær, segist hann ekki getað svarað því. Hann bendir á að þekktir gönguslóðar séu víðs vegar um Reykjanesskaga, meðal annars upp á Fagradalsfjall, sem sé vinsæl leið á meðal göngufólks á góðum sumardegi.

Bílar á svæðinu við Nátthaga.
Bílar á svæðinu við Nátthaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérútbúnir sérfræðingar mæla gasstyrk

Á facebooksíðu Veðurstofunnar er greint frá því að sérútbúnir sérfræðingar fari reglulega til að mæla gasstyrk við upptök eldgossins svo hægt sé að spá fyrir um magn gasmengunar frá eldstöðvunum og til að safna gögnum til frekari rannsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert