Þrír karlmenn voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í eins til þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árásir á annan karlmann fyrir utan skemmtistað í febrúar 2019. Ekki var þó talið að um samantekin ráð mannanna væri að ræða að ráðast á manninn, en þótt árásirnar hafi átt sér stað með stuttu millibili var hver í sínu lagi.
Í dómi héraðsdóms eru málsatvik rakin, en þar kemur fram að árásarmennirnir séu af pólskum uppruna og hafi verið í hópi Pólverja inni á staðnum. Sá sem fyrir árásunum varð segist hafa ætlað að sækja jakka sinn sem var í hrúgu með öðrum yfirhöfnum en við það hafi ágreiningur komið upp sem varð til þess að einn þremenninganna ýtti hinum manninum í gólfið. Stóð hann svo upp, en ekki er ljóst hvort sá sem hrinti hafi slegið hann eða ekki. Köstuðu dyraverðir mönnunum tveimur út af skemmtistaðnum í kjölfarið.
Fyrir utan skemmtistaðinn kemur aftur til stimpinga milli mannanna, en þá er lögregla líka á staðnum. Stangar sami maður og hafði áður ýtt hinum manninum hann í ennið og svarar hinn með sama bragði til baka. Er Pólverjinn í kjölfarið handtekinn.
Stuttu síðar þegar lögreglan er farin af vettvangi sést á öryggismyndavél að annar þremenninganna fer að þeim sem áður hafði verið stangaður og kýlir hann bylmingshöggi. Fellur hann til við höggið en stendur upp aftur og gengur að anddyri skemmtistaðarins. Eru þá dyraverðir í stappi við þrjá aðra menn, en sá þriðji úr þremenningahópnum stendur álengdar. Gengur hann svo til þess sem fyrir árásunum varð og skiptast þeir á einhverjum orðum, en eins og fyrri viðskiptin endar það með að sá þriðji úr pólska hópnum ræðst á hann. Í þetta skiptið er það með þungu hnefahöggi í andlitið. Fellur brotaþolinn við það í jörðina og rotast í nokkrar sekúndur.
Í dóminum er bæði haft eftir vitnisburði þremenninganna og dyravarðar að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið með mikla stæla við pólska hópinn og ögrað þeim töluvert. Þá sögðu þremenningarnir að hann hefði reynt að egna þá til átaka og verið með rasísk ummæli. Einn dyravörður staðfesti fyrir dómi þessa frásögn. Maðurinn neitaði þessu hins vegar fyrir dómi og sagðist ekki vera neinn slagsmálahundur.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að þrátt fyrir ögrun og ljót orð hafi þremenningunum ekki staðið ógn af manninum. Þrátt fyrir hegðun mannsins „verður harkaleg og ofsafengin atlaga þeirra hvers um sig ekki réttlætt með því“ [árásunum] segir í dóminum. Ekki var fallist á að um samverknað mannanna hefði verið að ræða.
Fengu þremenningarnir 90 daga, 30 daga og 45 daga skilorðsbundna dóma í málinu auk þess að þurfa samtals að greiða manninum 830 þúsund krónur í bætur.