Vonast til að veik börn snúi aftur

Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin …
Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á mygluvandræðum í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is

„Flutningarnir sjálfir ganga bara ágætlega. Það er verið að taka allt húsnæðið í gegn, mála og þrífa og koma því þannig fyrir að allt verði snyrtilegt þegar nemendur koma á morgun,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri í Fossvogsskóla, í samtali við mbl.is í dag. 

Allir nemendur Fossvogsskóla munu setjast á skólabekk í Korpuskóla frá og með morgundeginum á meðan reynt er að ráða fram úr mygluvandamálum í Fossvogsskóla. Þetta er í annað sinn á nokkrum árum sem færa hefur þurft starfsemi skólans vegna myglu. 

Mörg handtök

Aðspurð út í áskoranir sem fylgt geta slíkum flutningum segir Ingibjörg að raða þurfi í stofur upp á nýtt og að nokkuð þröngt verði setið. Þá krefjist flutningarnir mikilla þrifa og margra handtaka.

„Kennarar fóru í morgun yfir hvernig niðurröðun yrði í stofur. Þannig að það er almenn sátt um það. Síðan er verið að flytja borð og stóla, þetta er auðvitað allt þrifið eftir mjög ströngum reglum, þannig að það flyst engin gró á milli. Annar búnaður sem ekki er hægt að þrífa, við fáum hann nýjan,“ segir Ingibjörg og segir alla vera að gera sitt besta svo að flutningarnir gangi sem best fyrir sig. 

Einhver búnaður var fyrir í Korpuskóla sem nýta má áfram, en að sögn Ingibjargar þarf einnig að þrífa hann. 

„Það er verið að þrífa skólann og laga hann hátt og lágt. Eðlilega var þungt loft í skólanum, í sumum rýmum sem ekki höfðu verið í notkun. Þannig að það er bara verið að lofta út,“ segir Ingibjörg. 

Bygging Korpuskóla rýnd

Í þremur rýmum Korpuskóla hefur komið upp raki en aldrei hefur greinst mygla í húsinu. Þetta kemur fram í samantekt sem ráðist var í að beiðni foreldra í kjölfar vettvangsferðar starfsfólks og skólaráðs Fossvogsskóla í Korpuskóla um rýni á sögu byggingarinnar. 

Aflað var upplýsinga frá fasteignastjóra byggingarinnar á umhverfis- og skipulagssviði, frá fyrrverandi skólastjórnendum og umsjónarmanni fasteignar Korpuskóla sem hefur starfað við skólann frá upphafi.

Vonar að veik börn snúi aftur

Að sögn Ingibjargar var góð stemning meðal nemenda fyrir flutningum á fimmtudaginn, þegar kennt var utandyra í Fossvogsskóla. Hún segist vonast til þess að börn sem hætt voru að mæta í Fossvogsskóla vegna einkenna frá myglumengun snúi aftur og njóti sín í nýju húsnæði.

„Það ætla ég rétt að vona. Til þess erum við að fara í þetta, til að allir nemendur skólans geti verið saman á einum stað og nemendur fái að þróa með sér félagsþroska og þroska til að takast á við nám og störf með öðrum,“ segir Ingibjörg. 

Nemendur verða keyrðir í rútum frá Fossvogsskóla í Korpuskóla og heim aftur að skóladegi loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka