Ætlunin var að klára að gefa öllum starfsmönnum Landspítala bóluefni í þessari viku. Úr því mun ekki rætast og er ástæðan hlé á notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19. Þetta segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá farsóttarnefnd Landspítala.
Mótefnasvar við bólusetningu gegn Covid-19 er mjög gott, samkvæmt mótefnamælingum á meðal starfsfólks Landspítala, og virðist mótefnasvarið vera jafn gott hjá þeim sem hafa fengið eina sprautu af bóluefni og þeim sem eru fullbólusettir. Líklega er seinni sprautan þó nauðsynleg til þess að viðhalda mótefnum hinna bólusettu.
2.700 starfsmenn spítalans eru enn óbólusettir. Flestir þeirra starfa á dag- og göngudeildum spítalans. Fólkið hafði verið boðað í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca en fyrir tæpum tveimur vikum var hlé gert á notkun þess vegna mögulegra aukaverkana. Síðan þá hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, AstraZeneca og Lyfjastofnun Evrópu sagt að bóluefnið sé öruggt og engin tengsl séu á milli þess og blóðtappa.
Spurð hvort ekki sé mikilvægt að bólusetja starfsmennina 2.700 sem ekki hafa fengið einn einasta skammt af bóluefni segir Hildur:
„Það er mjög, mjög mikilvægt. Þetta er fólk í framlínu og er í samskiptum við sjúklinga alla daga og það er mjög áríðandi að það verði bólusett sem fyrst.“
Hvað varðar forgangsröðun í bólusetningu innan spítalans segir Hildur að spítalinn hafi haft reglugerðina að leiðarljósi. Hún segir forgangsröðunina þó hafa verið snúna, sérstaklega vegna þess að spítalinn hefur ekki fengið mikið magn af bóluefni, miðað við fjöldann sem þarf að bólusetja þar.
„Það eru svo margir sem eru í sama forgangi. Þetta er eins og 5.500 manns standi hlið við hlið en ekki í röð. Það eru allir svo ofboðslega mikilvægir. Þetta var tiltölulega einfalt til að byrja með þegar reglugerðin var skýr með bráðamóttökur, gjörgæslur og Covid-deildir,“ segir Hildur.
Eins og áður segir hefur mótefnamæling á meðal starfsfólks leitt í ljós að bóluefnin sem eru í umferð hér á landi gegn Covid-19 veita góða vörn gegn sjúkdómnum, jafnvel þó einungis sé um eina sprautu að ræða. Líklega er seinni sprautan þó nauðsynleg til þess að viðhalda mótefnum hinna bólusettu.
„Þetta hefur komið í ljós í þessum uppákomum sem hafa orðið hjá okkur að undanförnu þar sem hefur komið upp smit hjá starfsmanni eða á heimili starfsmanns. Það er búið að gerast í þrígang á undanförnum vikum. Þá höfum við eins og alltaf sett fólk í sóttkví og tekið sýni. Þá erum við búin að vera í þeirri stöðu að vera með allar tegundir af fólki, óbólusetta starfsmenn, hálfbólusetta starfsmenn og fullbólusetta starfsmenn. Við höfum tekið sýni hjá þeim öllum en mælt mótefni hjá þeim sem eru bólusettir til þess að fullvissa okkur um að þau séu varin. Það hefur komið í ljós að fólk er með mjög fín mótefni eftir að það er fullbólusett og núna vorum við að mæla mótefnin hjá fólki sem er bara búið að fá eina bólusetningu og það kemur mjög vel út líka,“ segir Hildur.
Aðspurð segir hún að þau sem hafa einungis fengið eina sprautu sýni svipað mótefnasvar og þau sem hafa fengið fulla bólusetningu. Með því er þó ekki öll sagan sögð.
„Það er alltaf talað um að seinni bólusetningin sé svona búst. Þú myndar öll mótefnin eftir fyrstu gjöfina og síðan færðu svona búst til þess að tryggja þig, þá gæti verið að mótefni hjá þeim sem eru búnir að fá fyrri bólusetninguna myndi hrapa ef þau fengju ekki seinni sprautuna. Þetta segir okkur bara að mótefnasvarið við bólusetningunni er mjög gott,“ segir Hildur sem bætir því við að hún hafi tröllatrú á öllum bóluefnunum sem hafa verið samþykkt til notkunar hér á landi.