Allir nemendur í úrvinnslusóttkví

Laugarnesskóli er við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn …
Laugarnesskóli er við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn grunnskóli fyrir börn í 1.-6. bekk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ákveðið hefur verið að grípa til svokallaðrar úrvinnslusóttkvíar fyrir 1.-6. bekk í Laugarnesskóla, vegna fjölgunar smita. Nemendur í 7.-10. bekk Laugalækjarskóla eiga svo að fara í úrvinnslusóttkví á morgun. 

Frá þessu greinir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í tilkynningu.

„Þetta þýðir að allir nemendur í þessum bekkjum verða að vera heima í sóttkví þangað til frekari ákvörðun hefur verið tekin. Rakningarteymið heldur áfram að rekja þau smit sem upp komu í dag. Sú vinna heldur áfram fram á nótt og á morgun,“ segir í tilkynningunni.

Á morgun eigi að koma betur í ljós hversu margir þeirra sem nú þegar eru komnir í úrvinnslusóttkví halda áfram í sóttkví.

Frístundaheimilinu lokað

„Ljóst er þó nú þegar að 6. bekkur í Laugarnesskóla er kominn í sóttkví sem endar með sýnatöku á laugardaginn, sama á við um 5. flokk karla í knattspyrnu í Þrótti.“

Allar íþróttaæfingar barna í Þrótti á grunnskólaaldri falla niður á morgun, miðvikudaginn 24. mars. Frístundaheimilinu verður lokað, sem og félagsmiðstöðinni. Starf skólahljómsveitar fellur niður.

Úrvinnslusóttkví fram til morguns (þar til rakningarteymið lýkur smitrakningu):

Laugarnesskóli, 1.-5. bekkur.
Laugalækjarskóli, 7.-10. bekkur.

Staðfest sóttkví fram á laugardag sem endar með sýnatöku:

Laugarnesskóli, 6. bekkur.
Þróttur, 5. flokkur karla í knattspyrnu.

Tilkynning hefur verið send á foreldra og forráðamenn allra barna í þessum hópum, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert