Allt að 500 manns verði í sóttkvíarhúsum

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa. Ljósmynd/Almannavarnir

Viðbúið er að fjölgi í farsóttarhúsum um nokkur hundruð manns um mánaðamót þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi.

Frá þeim tíma verður ferðamönnum, sem koma frá „eldrauðum“ svæðum í Evrópu gert að verja fimm daga skimunarsóttkví sinni á sóttvarnahóteli á vegum ríkisins. Hingað til hefur þeim verið frjálst að dvelja í heimahúsi eða á hóteli á eigin vegum.

Um 1.100 manns eru nú í skimunarsóttkví, en í samtali við mbl.is segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, að allt að helmingur þeirra hafi komið frá löndum sem flokkist sem eldrauð samkvæmt skilgreiningunni. Þar eru meðal annars hluti Svíþjóðar, Danmerkur og Póllands.

Nýjasta kort Sóttvarnastofnunar Evrópu yfir stöðu kórónuveirufaraldursins í ríkjum álfunnar.
Nýjasta kort Sóttvarnastofnunar Evrópu yfir stöðu kórónuveirufaraldursins í ríkjum álfunnar. Kort/Sóttvarnastofnun Evrópu

Fimm hús þegar mest lét

Rauði krossinn hefur séð um rekstur húsanna í faraldrinum. Ekki hefur enn verið rætt við forsvarsmenn þeirra um að taka að sér þessa ferðamenn, en aðspurður segist Gylfi ganga út frá því að svo verði gert. Ekki hafa fengist upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig rekstri húsanna, en ráðuneytið vísar á Sjúkratryggingar.

Þegar mest lét voru rekin fimm slík hús í landinu, þrjú á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Akureyri og annað á Egilsstöðum, en um þessar mundir er aðeins eitt í rekstri, við Rauðarárstíg í Reykjavík. Þar er nú 31 gestur í einangrun, flestir með breska eða suðurafríska afbrigði veirunnar, auk tíu í sóttkví.

Gylfi telur að hægt væri að taka á móti um 50-60 gestum til viðbótar á Rauðarárstíg. „En það er alveg ljóst að við þurfum fleiri hús en við höfum í dag og við þurfum að sníða starfsemina samkvæmt því að geta tekið á mót svo mörgum í einu,“ segir Gylfi. Sóttvarnir þurfi að vera eins og best verður á kosið til að tryggja að veiran breiðist ekki út á hótelinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert