Nokkrir nemendur í 5. bekk í Laugarnesskóla eru komnir í sóttkví eftir að hafa leikið á fótboltamóti hjá Þrótti um helgina með einum úr 6. bekk sem greindist í gær með kórónuveiruna.
Þetta staðfestir Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla.
Björn segir að nemandinn hafi farið í sýnatöku í gær vegna einkenna og skólastjórnendur bíði eftir fyrirmælum frá rakningarteyminu um hvort skólinn þurfi að fara í einhverjar frekari aðgerðir.
Áður höfðu fjórir af fimm bekkjum í einum árgangi Laugarnesskóla, um 80 nemendur, verið sendir í sóttkví í gær vegna smits hjá kennara við skólann.
Björn segir að nemandinn sem greindist í gær hafi komið síðast í skólann fyrir helgi. Hann vonast til þess að smitið hafi lítil áhrif til viðbótar á skólastarfið.