Aukagígur sækir í sig veðrið

Aðalgígurinn rís nokkuð hátt upp úr flatneskjunni og áfram vellur …
Aðalgígurinn rís nokkuð hátt upp úr flatneskjunni og áfram vellur úr honum hraunið með sama takti og hingað til. Engin merki eru um að dregið hafi úr virkninni. Austan megin hefur nýr gígur haslað sér völl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný smærri sprunga hefur opnast betur í hlið aðalgígsins í eldgosinu í Geldingadal í Fagradalsfjalli. Síðustu daga hefur mestöll virknin verið í aðalgígnum en nú er hún mjög sjáanleg á þessum tveimur stöðum.

Þessi breyting átti sér stað í seinasta lagi í morgun, því að á vefmyndavélum má sjá að gosið hefur verið á þessum tveimur stöðum í allan dag. Ljósmyndari mbl.is festi nýja gíginn skilmerkilega á filmu á ferð sinni um svæðið í dag.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, staðfestir að austan megin við aðalgíginn hafi virknin aukist og komi þar upp í minna gosopi.

„Þetta þýðir bara að jarðeldarnir standa enn þá yfir og á meðan við sjáum engar breytingar á mælitækjum okkar hér er mjög erfitt að meta hvenær gosið gæti endað,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Aðalgígurinn er orðinn töluvert stór hóll í landslaginu og áfram vellur upp úr honum hraunið, með sama takti og hingað til. Engin merki eru um að dregið hafi úr virkninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert