Bilað greiningartæki olli töf á greiningu sýna

Frá greiningu sýna á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Frá greiningu sýna á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Töf varð á greiningu sýna hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær vegna bilunar í greiningartæki deildarinnar. Yfirlæknir deildarinnar vonar að það náist að gera við tækið í dag og segir ólíklegt að bilunin sé alvarleg. 

„Þetta tafði greininguna aðeins. Það var bara vegna þess að á sama tíma og við vorum að reyna að koma tækinu í gang vorum við ekki að keyra sýnin,“ segir Karl G. Kristinsson yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar, í samtali við mbl.is.

Vísir greindi fyrst frá.

Karl segir að þegar í ljós kom að ekki væri hægt að laga tækið í gær hafi verið ákveðið að nýta eldri tæki til þess að greina sýnin en það er tímafrekara.

„Við þurftum að vinna þarna fram á kvöldið og þurftum síðan að vinna þau sýni sem þurfti að endurtaka í morgun,“ segir Karl.

Náðu að greina öll sýnin

Þó eldri leiðin sé tímafrekari á deildin að geta annað eftirspurn með henni, að því gefnu að sýni séu ekki óvenjulega mörg. 1.700 sýni voru tekin í gær og voru þau öll greind samdægurs.

„Þrátt fyrir bilunina náðum við að greina öll sýni innan sólarhrings sem er mun betra en gengur og gerist víðast hvar,“ segir Karl. 

Aðspurður segir hann að ekki sé reiknað með að jafn mörg sýni verði tekin í dag en það á eftir að koma í ljós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert