Bólusetningar hefjist aftur „mjög bráðlega“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Arnþór

Heilbrigðisráðherra telur að Ísland geti byrjað að bólusetja á ný með bóluefni AstraZeneca mjög bráðlega. Líklega kemur það betur í ljós síðar í þessari viku til hvaða aðgerða verður gripið.

„Sóttvarnalæknir hefur viljað fara betur í saumana á málinu og verða samferða Norðurlöndunum í því. En við erum að fá góðar fréttir af bæði virkni og öryggi AstraZeneca úr nýrri rannsókn í gær núna síðast,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn fyrr í dag.

„Ég geri ráð fyrir að við getum haldið áfram notkun á því mjög bráðlega og mögulega með einhverjum tilteknum skilmerkjum en það kemur þá bara í ljós.“

Heilbrigðisstarfsmaður í London með bóluefni AstraZeneca.
Heilbrigðisstarfsmaður í London með bóluefni AstraZeneca. AFP

Spurð út í stöðuna á Landspítalanum þar sem aðeins um helmingur starfsmanna hefur verið bólusettur sagði hún það setja strik í reikninginn þegar eitt bólefni dytti út og átti þar við AstraZeneca. Það breyti áætlununum stjórnvalda. „En það er sóttvarnalæknir sem sér um að byggja upp þessar áætlanir og koma þeim til framkvæmda í gegnum þau sem bera ábyrgð á því,“ sagði Svandís.

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í biðstöðu 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði eftir fund sinn með ríkisstjórninni í ráðherrabústaðnum að AstraZeneca-málið væri í biðstöðu og það væri alls ekkert búið að slá það út af borðinu, enda mjög virkt og gott bóluefni.

„Við erum að safna upplýsingum frá okkar kollegum annars staðar á Norðurlöndunum hvort við getum til dæmis tilgreint aldurshóp þar sem er óhætt að gefa bóluefnið og þar sem aukaverkanir sjást ekki. Þá gætum við farið af stað og notað bóluefnið í tilgreindum hópum,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert