Fá stuðningsmeðferð á spítalanum

Gunnar Guðmundsson (t.h.).
Gunnar Guðmundsson (t.h.). mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Við sjáum ekki sérstök merki þess að gasmengun muni hafa áhrif á þá sem eru viðkvæmir fyrir. Til þess er hún í of litlu magni eins og staðan er núna,“ segir Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir á Landspítalanum.

Gunnar segir að mismunandi sé eftir eldgosum hvaða eitruðu lofttegundir eru á sveimi. Stærð gossins skiptir sömuleiðis máli. Í gosinu í Holuhrauni hafi fólk átt á hættu að komast í snertingu við mun meira magn af eitruðum lofttegundum en nú er.

„Við eigum ekki sérstaklega von á því að fólk komi hingað á spítalann vegna gasmengunar, ekki nema það fari sérstaklega óvarlega. Mikilvægt er ef svo ber undir að fólk sé tekið beint úr menguninni til að forða því frá bráðum eitrunum.“

Aðspurður segir Gunnar að fólk sem fái gaseitrun fái aðallega stuðningsmeðferð á spítalanum. „Fólk fær súrefni. Ef það fengi kolmónoxíðeitrun þá gæti komið til greina að nota háþrýstiklefann sem er til staðar hér á spítalanum. En aðallega er þetta stuðningsmeðferð.“

Greint var frá því á Facebook-síðu Veðurstofunnar að sérútbúnir sérfræðingar á hennar vegum fari reglulega til að mæla gasstyrk við upptök eldgossins í Geldingadal, svo hægt sé að spá fyrir um magn gasmengunar frá eldstöðvunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert