Af öllum alvarlegu tilkynningunum vegna gruns um aukaverkun hafa alls borist fjórar tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19; tvær fyrir bóluefni AstraZeneca, ein fyrir bóluefni Pfizer-BioNTech og ein fyrir bóluefni Moderna.
Tvær tilkynninganna vörðuðu sjúkrahúsinnlögn og önnur þeirra lífshættulegt ástand. Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við spurningum mbl.is vegna tilkynntra mögulegra alvarlegra aukaverkana í kjölfar bólusetninga við Covid-19 á Íslandi.
Lyfjastofnun hafa borist 197 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar með bóluefni Pfizer-BioNTech, 150 með bóluefni Moderna og 218 með AstraZeneca. Langflestar þeirra eru tilkynningar um mögulegar vægar aukaverkanir.
Lyfjastofnun tekur fram að þær tölur sem birtast á vef Lyfjastofnunar snúa að tilkynningum um grun um aukaverkun og ekki er víst að tilkynningarnar endurspegli raunverulegar aukaverkanir af bóluefnunum en það er metið í hverju tilfelli fyrir sig.
Mjög misjafnt er eftir bóluefnum hversu mikið hefur borist af því til landsins. Samkvæmt upplýsingum á covid.is frá því í morgun er búið að fullbólusetja 14.493 með bóluefni Pfizer og 11.536 hafa fengið fyrri bólusetninguna með því bóluefni.
Aftur á móti eru 2.413 fullbólusettir með bóluefni Moderna og 247 hafa fengið fyrri bólusetningu með því bóluefni.
Alls hafa 9.273 fengið fyrri bólusetningu með AstraZeneca bóluefninu en það hefur ekki verið gefið frá 11. mars hér á landi.
Alls hafa borist 24 alvarlegar tilkynningar vegna bóluefnis Pfizer samkvæmt svari frá Lyfjastofnun:
Alls hafa borist 5 alvarlegar tilkynningar vegna bóluefnis Moderna:
Alls hafa borist 7 alvarlegar tilkynningar vegna bóluefnis AstraZeneca
Á Íslandi, miðað við tölur á covid.is frá klukkan 11 í morgun, eru 16.906 einstaklingar fullbólusettir, en bólusetning er hafin hjá 21.056 einstaklingum.
5% íbúa á Íslandi 16 ára og eldri eru fullbólusettir samkvæmt tölum á covid.is frá því í gær og 2% hafa fengið Covid-19 og eða mótefni til staðar.
Tekið skal fram að ranglega var farið með fjölda bólusettra á Íslandi í frétt á mbl.is í morgun en sú frétt hefur verið leiðrétt.