Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnir á fundi ríkisstjórnarinnar í dag minnisblað með drögum að nýjum reglum þar sem meðal annars er kveðið á um sýnatöku barna á landamærum og að fólk frá ákveðnum áhættusvæðum verði skyldað til dvalar í farsóttahúsi.
Þetta kom fram í máli hennar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
„Við erum að reyna að stoppa í þessi göt á landamærunum eins og við getum,“ sagði Svandís.
Enn fremur var greint frá, á mbl.is í gær, fyrirhuguðum fundi Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis með formönnum ríkisstjórnarflokkanna og heilbrigðisráðherra í dag vegna stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi.