Háskólinn vill kaupa Sögu

Hótel Saga er umvafin háskólabyggingum. Nú gæti hún orðið ein …
Hótel Saga er umvafin háskólabyggingum. Nú gæti hún orðið ein þeirra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Háskóli Íslands hefur hafið viðræður um kaup á Hótel Sögu. Í tölvupósti sem sendur var á nemendur skólans fyrir helgi kom fram að til stæði að flytja menntavísindasvið skólans í húsnæðið, en það er nú til húsa í Stakkahlíð, nokkuð frá háskólasvæðinu sjálfu.

Segir í pósti rektors að stefna Háskólans sé að öll meginstarfsemi hans verði byggð upp á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni og því hafi falli kaupin vel að stefnunni. Þótt Hótel Saga krefjist endurbóta og breytinga til að laga hana að skólastarfinu þá sé það bæði hagkvæmara og fljótvirkara að festa kaup á henni en að ráðast í nýbyggingu frá grunni.

Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverð, en fasteignamat hótelsins er tæpir 4,6 milljarðar króna.

Auk þess að hýsa menntavísindasvið gerir rektor ráð fyrir að eignin nýtist fyrir margvíslega aðra starfsemi Háskólans.

Fulltrúar Röskvu funda með Félagsstofnun stúdenta.
Fulltrúar Röskvu funda með Félagsstofnun stúdenta. Ljósmynd/Aðsend

Vilja stúdentagarða í húsinu

Forsvarsmenn Röskvu – samtaka félagshyggjufólks við HÍ funduðu í dag með Félagsstofnun stúdenta til að ræða vilja sinn til að koma upp stúdentagörðum í hluta hússins. Telur Röskva upplagt að ráðist verði af alvöru í greiningu á þeim möguleika og hefur FS tekið í sama streng, að því er segir í yfirlýsingu frá Röskvu.

Fjallað var um þennan kost í Morgunblaðinu í desember.

„Það hlýtur að vera auðvelt og hagkvæmt að nýta eignina í stúdentagarða, að minnsta kosti að einhverju leyti, og við viljum láta reyna á þann nýtingarkost,“ segir Rebekka Karlsdóttir, en hún er oddviti Röskvu á lista á félagsvísindasviði.

Stefna Röskvu er að minnst 15% stúdenta hafi aðgang að húsnæði á stúdentagörðum, en hlutfallið er um 10% um þessar mundir. Biðlistar eftir stúdentagörðum hafa þó styst verulega á liðnum árum eftir því sem stúdentagörðum hefur fjölgað. Þeir nýjustu, Mýrargarður á Sæmundargötu, voru teknir í gagnið í fyrra og nú stendur yfir bygging 69 íbúða við hlið Gamla-Garðs við Hringbraut.

Kosið verður til stúdentaráðs nú á miðvikudag og fimmtudag, 24.-25. mars. Tveir listar eru í framboði, Röskva og Vaka, en Röskva hefur haft meirihluta síðustu fjögur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert