Hús Þróttar sótthreinsað

Einn leikmaður í yngri flokkum Þróttar greindist með Covid-19 í …
Einn leikmaður í yngri flokkum Þróttar greindist með Covid-19 í gær. Ljósmynd/Facebook-síða Þróttar

Upp hefur komið smit í einum yngri flokka drengja í knattspyrnu hjá Þrótti og í samráði við smitrakningarteymi og almannavarnir hefur húsi íþróttafélagsins verið lokað vegna sótthreinsunar til klukkan 14 í dag.

Hringt hefur verið í foreldra/forráðamenn úr viðkomandi flokki og tilkynnt um smitið auk þess sem þeir eru beðnir um að sýna varúð en fyrirmæli um sóttkví berst frá rakningarteymi ef við á.

Listi yfir alla þátttakendur í æfingu flokksins á föstudag hefur verið sendur sóttvarnayfirvöldum.

Þjálfarar flokksins eru komnir í sóttkví. Aðrir þjálfarar sem hafa verið í tengslum við liðið – þ.m.t. yfirþjálfari – munu ekki stýra æfingum á meðan beðið er frekari upplýsinga  Beðið er frekari fyrirmæla frá heilbrigðisyfirvöldum/almannavörnum. Æfingar verða með hefðbundnum hætti og samkvæmt æfingatöflu að því er segir í tilkynningu á vef Þróttar. 

Foreldrar/forráðamenn eru vinsamlegast beðnir um að brýna fyrir iðkendum að gæta að sóttvörnum, spritta hendur og nota andlitsgrímur og ef einhver finnur fyrir minnstu einkennum að fara þegar í stað í skimun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert