Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir að óskað verði eftir tillögum frá bæjarbúum um nafn á hrauninu sem er að myndast í Geldingadal í Fagradalsfjalli.
„Það var ákveðið á fundi í dag að efna til könnunar meðal Grindvíkinga hvaða nafn þeir vildu hafa. Það verður send út spurning til íbúa um það hvaða nöfn þeim detta í hug,“ segir Fannar.
Engar tillögur hafa borist bæjaryfirvöldum enn um sinn.
Inn á ritstjórn mbl.is hafa þó ratað hugmyndir á borð við Geldingadalahraun, Dalshraun og jafnvel Litla-Hraun, sem er þó ekki ólíklegt til þess að reynast að lokum rangnefni í ljósi þess álits æ fleiri fræðimanna að gosið geti verið dyngjugos, en sum slík hafa getið af sér heilu fjöllin.
Fannar segir að örnefnanefnd taki í kjölfar íbúakönnunarinnar við tillögunum og vinni úr þeim. Að lokum er það ráðherra sem staðfestir nafnið, þannig að þetta er ákveðið ferli sem nú er hafið, segir Fannar.
„Það er svolítið gaman að leita til Grindvíkinga um þetta og menn hafa verið að kasta ýmsu fram,“ segir bæjarstjórinn. Hann tekur sjálfur ekki afstöðu til nafngiftarinnar.