Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú karlmanns á þrítugsaldri sem í gær var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. apríl. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglunnar, segir að maðurinn hafi ekki fundist þegar færa átti hann í gæsluvarðhald í gær og er hans nú leitað.
Maðurinn er grunaður um frelsissviptingu, ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, hótanir og eignaspjöll. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór fram á að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald í síðustu viku en dómurinn hafnaði beiðni lögreglu og því þurfti að láta hann lausan. Lögregla hefur aðeins heimild til að halda fólki í varðhaldi í sólarhring.
Margeir segir að þetta sé ekkert einsdæmi, að þegar færa á fólk í gæsluvarðhald finnist það ekki strax.
Stutt er síðan sambærilegt mál kom upp, það er að héraðsdómur hafnar gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu en Landsréttur snýr ákvörðuninni við. Síðast gerðist það í svonefndu Rauðagerðismáli.
Maðurinn sem lögregla leitar nú er grunaður um afbrot framin á rúmlega þriggja og hálfs mánaðar tímabili, eða frá því í lok nóvember á síðasta ári og fram í miðjan mars á þessu ári. Þá hefur viðkomandi stöðu sakbornings í sex öðrum málum, sem eru til meðferðar hjá lögreglu.
Svala Lind Ægisdóttir tjáði sig nýlega um málið í færslu á Facebook, en brot mannsins hafa beinst gegn henni og fjölskyldu hennar.