Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir að hafa ekið undir áhrifum vímuefna á annan bíl á Sandgerðisvegi þegar hann var á flótta undan lögreglu 18. janúar 2020. Í hinum bílnum var Elínborg Steinunnardóttir en slysið hafði hræðilegar afleiðingar fyrir hana og dvaldi hún á sjúkrahúsi í 58 vikur. Þarf hún nú að nýta sér NPA-þjónustu fyrir fatlað fólk.
Í yfirlýsingu frá systur hennar, Borghildi Guðmundsdóttur, segir að með öllu óskiljanlegt sé að síbrotamaðurinn fái ekki lengri dóm. Á sama tíma og systir hennar verði fyrir andlegu og líkamlegu tjóni til lífstíðar fái maðurinn sjö mánaða dóm.
„Systir mín hefur grátið og við öll í marga mánuði í þeirri baráttu sem við öll höfum þurft að heyja til að borga fyrir hrottalegt gáleysi þessa unga manns sem hefur ítrekað stolið bifreiðum undir áhrifum fíkniefna ásamt fleiri brotum gegn löggjöfinni og ættu því að vera þessum unga manni deginum ljósara hverjar mögulegar afleiðingar gjörða hans gætu verið. Afsökunarbeiðni frá honum er ekki tekin til greina,“ segir Borghildur meðal annars í yfirlýsingunni.
Eiginmaður Elínborgar, Þröstur Ingimarsson, lést í nóvember 2020 en þá var Elínborg enn á sjúkrahúsi eftir slysið. Segir í yfirlýsingunni að það hafi kostað hann sálar ró og frið síðustu tíu mánuðina sem hann lifði.
„Hann deyr enn ekki vitandi lífslíkur né lífsmöguleika eiginkonu sinnar,“ segir Borghildur og bætir við að lengd dómsins sé vanvirða í sinni svæsnustu mynd. „Ég neita að trúa að mannskepnan sé ódýrari fyrir dómstólum en veðhlaupahestur.“
Yfirlýsingin í heild sinni:
Í dag 23.03.2021 fáum fjölskyldan einn eitt sparkið og það beint í hjartað og það beint frá dómstól þessa lands.
Að síbrotamaðurinn sem olli systur minni Elinborgu Steinunnardóttur örkumlun, rændi hana framtíðar draumum á þrá og stundum viljan til að lifa fái 7 mánaða fangelsisdóm er með öllu óskiljanlegt. Að síbrotamaðurinn sem olli bestu vinkonu systur minnar og ökumanni bifreiðarinnar sem systir mín var farþegi í, verulegu andlegu tjóni fyrir lífstíð, fái 7 mánaða fangelsisdóm er með öllu óskiljanlegt.
Síbrotamaðurinn sem keyrði á 150 km hraða við slæm veður skilyrði á flótta undan lögreglu enda vissi hann rétt frá röngu, og lagði fjölmarga borgara í hættu, dýr, börn og fullorðna, og endaði á því að brjóta fótleggi, mjaðmargrind, bringubein, fjölmörg rifbein, úlnlið, olnboga ásamt innri áverkum og blæðingum, auk óafturkræfðri heilablæðingu og heiladrepi og það bara í systur minni, svo hún mun aldrei ganga eða fá stjórn á öðru en hægri handlegg og hugsunum sínum er blákaldur veruleiki heillar fjölskyldu. Merkilega missti hún ekkert mynni né meðvitund og man því hvert einasta smáatriði hvernig hún hefur þurft að þjást síðan slysið átti sér stað 18.01.2020. Og það gerum við öll sem að þessum skelfilegu afleyðingum gjörða þessa manns hafa komið. Systir mín talaði við æðri mátt alla leið frá því að vera klippt út úr hræinu sem hún sat föst í með mælaborðið á kafi í lærinu á sér og alla leið á sjúkrahús og bað um að fá að lifa. Þetta kostaði eiginmann systur minnar sína sálar ró og frið síðustu 10 mánuðina sem hann lifði. Hann deyr enn ekki vitandi lífslíkur né lífs möguleika eiginkonu sinnar. Þetta kostaði son þeirra og dóttur lífið eins og þau þekktu það og dómur fyrir að valda slíku er vanvirðing í sinni svæsnustu mynd, aðeins 7 mánuðir. Ég neita að trúa því að mannskepnan sé ódýrari fyrir dómstólum en veðhlaupahestur.
Systir mín hefur grátið og við öll í marga mánuði í þeirri baráttu sem við öll höfum þurft að heyja til að borga fyrir hrottalegt gáleysi þessa unga manns sem hefur ýtrekað stolið bifreiðum undir áhrifum fíkniefna ásamt fleiri brotum gegn löggjöfinni og ættu því að vera þessum unga manni deginum ljósara hverjar mögulegar afleyðingar gjörða hans gætu verið. Afsökunarbeiðni frá honum er ekki tekin til greina. Hann verður alltaf dæmdur af gjörðum sínum og ættu dómstólar að vera bakbein borgara þessa lands í að krefjast þess að fólk virði mannslíf annara með viðeigandi refsingu en ekki 7 mánaða orlofi í fríu fæði og húsnæði.
Við viljum taka sérstaklega fram að engin okkar ber kala til fjölskyldu og ættingja þessa unga manns og vonum eindregið að þau fái viðeigandi aðstoð við sínu áfalli því Guð veit að þetta er nánast ólýsanlegur sársauki fyrir okkur öll.