Máttu reka ljósamann fyrir að tala illa um samstarfsmenn

Borgarleikhúsið mátti segja upp konu sem starfaði sem tæknimaður í …
Borgarleikhúsið mátti segja upp konu sem starfaði sem tæknimaður í ljósadeild vegna skilaboða sem hún sendi móður sinni um samstarfsfólk sitt. Skilaboðin komu fyrir slysni fyrir sjónir samstarfsfólksins. mbl.is/Eggert

Borgarleikhúsinu var heimilt að reka konu sem starfaði sem ljósamaður í leikhúsinu vegna meiðandi ummæla um samstarfsfólk sem hún lét falla í einkaskilaboðum til móður sinnar, en komu fyrir slysni fyrir sjónir starfsfólks leikhússins. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en Arnar Þór Jónsson dómari kvað upp úrskurð í dag.

Konan hóf störf í ljósadeild síðsumars 2017 sem tæknimaður í ljósadeild. Í ársbyrjun 2019 var henni sagt upp störfum með bréfi:

„Kæra [...] mín, þú hefur staðið þig frábærlega í vinnu hjá mér, ert samviskusöm og hugsa sjálfstætt. Vandamálið er tengt atvikinu í vor, en útfrá því er erfitt fyrir mig að verja viðveru þína í húsinu. Ég vona að þú skiljir afstöðu mína en mér þykir miður að taka þessa ákvörðun,“ sagði í uppsagnarbréfinu.

Konan kannaðist ekki við atvikið sem vísað var til, en af dómi má ráða að hún hafi gleymt að skrá sig út úr tölvu í móttöku leikhússins. Þar hafi því blasað við starfsfólki skilaboð sem hún hafði sent móður sinni þar sem hún fór ófögrum orðum um nokkra samstarfsmenn sína. Varð það til þess að henni var sagt upp.

Konan fór fram á 1,5 milljónir í skaðabætur vegna tapaðra tekna og annað eins í miskabætur en hún taldi uppsögnina ólöglega.

Hafði áhrif á vinnuumhverfi

Leikhúsið krafðist sýknu og taldi uppsögnina réttlætanlega. Segir að ummæli þau sem konan og móðir hennar hafi viðhaft um samstarfsmenn sína hafi leitt til þess að vinnuumhverfi varð spennuþrungið og nánast hafi verið óstarfhæft þar á köflum.

Samskiptaörðugleikar hafi verið miklir og þeir samstarfsmenn sem ummælin beindust að hafi átt erfitt með að vinna með konunni. Því hefði ekki önnur leið verið fær en að segja henni upp.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hefði verið lögmæt og rangt sé að hún hafi byggt á efnislega röngum forsendum eða valdið meira tjóni fyrir konuna en almennt fylgi uppsögnum. Uppsagnarheimild atvinnurekenda sé hvorki í lögum né kjarasamningi takmörkuð á þann hátt að óheimilt sé að byggja á gögnum eða upplýsingum sem honum kunna að berast um málefni starfsmanna.

Málskostnaður var látinn niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert