Notuðu eldgosið sem afsökun áður en það hófst

Einar Karl Hallvarðsson er ríkislögmaður.
Einar Karl Hallvarðsson er ríkislögmaður. mbl.is/Styrmir Kári

Ríkislögmaður bað Mannréttindadómstól Evrópu á dögunum um enn einn frestinn til að skila gögnum í máli Arnars Helga Lárussonar gegn íslenska ríkinu, í þetta skiptið af mjög sérstakri ástæðu. 

„Helsta ástæðan er yfirvofandi eldgos í nágrenni Reykjanesbæjar, ástand sem hefur staðið yfir frá því í lok febrúar,“ segir í bréfi ríkislögmanns til dómstólsins þegar gefin er upp ástæðan fyrir því að Reykjanesbær hafi ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum.

Ríkið átti að skila dómstólnum gögnunum 19. mars (samkvæmt nýjasta fresti) en bað um annan frest í bréfi dagsettu 17. mars. Þar var yfirvofandi eldgos (e. „imminent volcanic eruption“) nefnt sem ástæða fyrir nauðsyn frestsins.

Eldgos var á ritunartíma bréfsins alls ekki hafið, heldur hófst það tveimur dögum síðar.

Lygar og vitleysa

Arnar Helgi Lárusson gefur lítið fyrir röksemdirnar sem koma fram í bréfinu og furðar sig á því að ríkið sé að tefja málið – í raun og veru með „lygum og vitleysu.“

Hann hefur staðið í málaferlum við Reykjanesbæ vegna aðgengis fyrir fatlaða í opinberum byggingum þar frá 2012, fyrst í héraðsdómi, svo í Hæstarétti og nú fyrir MDE.

Arnar Helgi Lárusson lamaðist fyrir neðan brjóst í vélhjólaslysi árið …
Arnar Helgi Lárusson lamaðist fyrir neðan brjóst í vélhjólaslysi árið 2002 en hefur vegna aðgerða náð miklum bata síðan og á í dag til dæmis Íslandsmet í hjólastólakappakstri. Ólafur Már Svavarsson.

„Þeir segja að Reykjanesbær geti ekki skilað skýrslunni sem hann á að skila um málið og lýsa þessu eins og það séu daglegir neyðarfundir og allsherjarneyðarástand. Þetta er mjög furðulegt. Það er ekkert í gangi í Reykjanesbæ. Ef eitthvað er þá er það í Grindavík, og ég er ekki í málaferlum við Grindavík,“ segir Arnar Helgi í samtali við mbl.is.

Arnar er orðinn langþreyttur á því sem hann segir vera tilraunir hins opinbera til að tefja málaferlin. 

„Í þessu tilfelli er ég eiginlega bara tilbúinn að segja að þeir séu vísvitandi að segja ósatt. Ég er eiginlega bara þar, hvort sem það eru lögfræðingarnir eða íslenska ríkið að segja þetta, þá er þetta bara ömurlegt,“ segir Arnar. „Mér finnst ekki að ríkið eigi að geta tafið mál svona fyrir dómstólum í raun og veru bara með lygum og vitleysu.“

Bréfið er á ensku og er stílað á Mannréttindadómstól Evrópu.
Bréfið er á ensku og er stílað á Mannréttindadómstól Evrópu. Skjáskot/Ríkislögmaður

Í bréfinu segir að sveitarstjórn í Reykjanesbæ hafi undanfarið verið á viðbúnaðarstigi og verið að undirbúa rýmingaráætlanir. Daglegir neyðarfundir hafi farið fram með almannavörnum og sömuleiðis hafi borgarafundir verið haldnir. Af þessum sökum er að sögn ríkislögmanns ómögulegt að skila gögnunum í tæka tíð. 

„Vita ekki hver ég er“

Mál Arnars gegn ríkinu lýtur að aðgengi fyrir fatlaða í Duushúsi og í 88 húsi, þar sem Arnar hefur ekki getað tekið þátt í tómstundastarfi barna sinna vegna fötlunar sinnar.

Reykjanesbær neitaði á sínum tíma að bæta aðstæður þar, sem leiddi til þess að Arnar fór í mál gegn sveitarfélaginu, sem hann tapaði í héraði og Hæstarétti. Nú lætur hann á það reyna fyrir MDE, en það sækist erfiðlega að undirbúa meðferð málsins vegna seinagangs hins opinbera við að skila gögnum.

„Þau hafa verið að draga málið alveg síðan ég byrjaði í þessari baráttu fyrir aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Þau láta eins og ég sé bara lax sem þarf að þreyta til að ég gefist á endanum upp. En þau eru með vitlausan lax og vita greinilega ekki hver ég er, því á meðan hjarta mitt slær held ég áfram,“ segir Arnar.

Duushús í Reykjanesbæ.
Duushús í Reykjanesbæ.

Til viðbótar við þetta nefnir Arnar að ríkið hafi áður fengið frest í málinu á þeim grundvelli að verið væri að reyna að semja um sættir við Arnar. Arnar kannast ekki við að neinar slíkar viðræður hafi átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert