Sex piltar á aldrinum 16-18 ára voru handteknir á Akureyri í tengslum við meiri háttar líkamsárás, rán og eignaspjöll á bílastæðinu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á sunnudagskvöldið. Veist var að 16 ára pilti með hamri og hann sleginn í höfuðið auk þess að bifreið sem hann var farþegi í var skemmd. Eru piltarnir sex grunaðir um aðild að málinu.
Fjöldi yfirheyrslna fór fram í gær með aðstoð barnaverndarfulltrúa auk þess sem rætt var við vitni og leitir gerðar í bifreið og húsnæði. Fannst meðal annars hamar sem talinn er tengjast málinu.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að rannsókn miði vel og sé langt á veg komin. Málsatvik séu talin ljós og voru piltarnir sex látnir lausir að loknum yfirheyrslum í gærkvöldi.