„Þarf ekki nema einn einstakling“

Þórólfur Guðnason fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun.
Þórólfur Guðnason fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun. mbl.is/Arnþór

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að staðið sé vel að skimunum á landamærunum til að lágmarka hættuna á að smit komist á kreik innanlands.

Spurður fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun hvort Ísland geti tekið á móti fleiri erlendum ferðamönnum á sama tíma og kórónuveiran hefur verið í vexti víða erlendis og bólusetningar heldur stutt á veg komnar hér á landi sagðist hann ekki ætla að leggja mat á það.

Hann sagði að mjög lítið hefði verið um innanlandssmit síðustu misserin og nánast ekki neitt. „Við erum búin að slaka verulega á og þá er helsta áhættan að við fáum uppsveiflu hér aftur og að við missum þetta inn um landamærin. Það þarf ekki nema einn einstakling sem kemur inn og fer ekki eftir reglum að hann gæti smitað út frá sér,“ sagði Þórólfur og lagði áherslu á að standa þyrfti eins vel að skimunum á landamærunum og mögulegt er til að lágmarka hættuna á að smit berist til landsins.

„Það er hægt að gera það á marga vegu og ég hef skilað ákveðnum tillögum til ráðherra hvað það varðar,“ sagði hann.

Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Fólk fari í sýnatöku 

Eitt innanlandssmit greindist í gær og var viðkomandi í sóttkví. Þórólfur kvaðst ánægður með það en tók fram að frekari smit gætu enn komið upp. „Ég held að það geti alveg gerst og við þurfum að vera mjög vel vakandi fyrir því. Við þurfum að hvetja fólk áfram til að fara í sýnatöku ef það er með minnstu einkenni og hika ekki við það,“ sagði hann og nefndi að auðvelt væri að komast í sýnatöku.

Fólk á leið í sýnatöku.
Fólk á leið í sýnatöku. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur fólk verið of kærulaust?

„Það er bara í mannlegu eðli að um leið og hættan er ekki alveg yfirvofandi fara menn kannski að slaka á. Við höfum séð það allan þennan faraldur og það er viðbúið,“ svaraði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert