Íslensk stjórnvöld hafa gengið úr skugga um að ákvörðun Evrópusambandsins um að banna útflutning bóluefna gegn Covid-19 frá ríkjum sambandsins til landa utan þess mun ekki raska afhendingu bóluefna til Íslands.
Frá þessu greinir stjórnarráðið í tilkynningu.
„Ísland er aðili að samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum og situr við sama borð og ríki Evrópusambandsins varðandi þau bóluefni sem samningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins taka til og afhendingu þeirra,“ segir í tilkynningunni.
„Bóluefnunum er útdeilt hlutfallslega jafnt þeirra þjóða sem aðild eiga að samningunum miðað við íbúafjölda og Ísland er aðili að þeim samningum.“
Greint var frá því á mbl.is fyrr í kvöld að Evrópusambandið hefði ákveðið að banna útflutning á bóluefni gegn kórónuveirunni til Íslands, auk annarra landa. Sérstaka heimild mun nú þurfa til að flytja bóluefni frá ríkjum sambandsins til Íslands.
Sett eru tvö ný skilyrði fyrir útflutningi bóluefna frá ríkjum sambandsins. Annars vegar er litið til þess hvort innflutningslandið hamli sjálft útflutningi bóluefna eða efna sem nýtast til að framleiða þau.
Hins vegar er litið til þess hvort staða faraldursins sé betri eða verri í viðkomandi landi, í samanburði við Evrópusambandið. Er þá um að ræða stöðu bólusetninga, aðgang að bóluefnum og hversu útbreiddur faraldurinn er.