„Það er gáfaðra fólk en ég sem heldur því fram að fjórða bylgjan sé hafin. Þar á meðal Kári Stefánsson sem er maður með ríkt innsæi,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á Covid-göngudeild Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Í færslu Ragnar á Facebook segir hann að færa megi „sterk rök fyrir því að fjórða bylgjan sé hafin“ og það ætti ekki að koma neinum á óvart.
Ragnar er í fríi eins og er en fylgist grannt með stöðu mála.
„Þetta er breska afbrigðið og það virðist vera mun meira smitandi og þess vegna þurfum við að hafa af því meiri áhyggjur. Ég vona að ríkisstjórnin grípi nú til viðeigandi aðgerða.“
Hann treystir sér ekki til að giska á hvaða aðgerðir ríkisstjórnin ætlar að boða á fundi nú klukkan þrjú í dag en segist treysta tillögum Þórólf Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann bendir á að stór vika sé framundan í veisluhöldum og það megi ekki sofna á verðinum.
„Það duga engin vettlingatök ef við ætlum að sigrast á þessu og fá sæmilegt vor og sumar,“ segir hann og bætir því við að reynslan sýni okkur að það taki 90 til 120 daga að kveða niður eina bylgju.
Færa má sterk rök fyrir því að fjórða bylgja sé hafin. Það ætti ekki að koma okkur á óvart! Hvet alla með einkenni að bóka tíma í skimun. Munum hversu vel hefur gengið - og að við reddum þessum saman!
Posted by Ragnar Freyr Ingvarsson on Wednesday, 24 March 2021