Ellefu nemendur smitaðir

Laugarnesskóli er við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn …
Laugarnesskóli er við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn grunnskóli fyrir börn í 1.-6. bekk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Að minnsta kosti ellefu nemendur í Laugarnesskóla höfðu greinst smitaðir af Covid-19 í gærkvöldi. Þá var ekki búið að greina öll sýni sem tekin voru vegna hópsýkingarinnar þar.

Þetta staðfestir Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóri Lauganesskóla, í samtali við mbl.is. Öll börn í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla eru í úrvinnslusóttkví og þá er sérstök aðgát viðhöfð gagnvart nágrannaskólum eins og Langholtsskóla og Vogaskóla.

Til stendur að halda árshátíð nemenda á unglingastigi í Langholtsskóla í kvöld og er hún enn á dagskrá. Hreiðar Sigtryggsson skólastjóri segir að það séu eldri nemendur og annar aldurshópur en þeir nemendur sem hafa greinst smitaðir í nágrannaskóla í Lauganesi. Þá séu eldri nemendur í Langholtsskóla í annarri álmu en yngri nemendur. Sóttvarnahólf og fjöldatakmarkanir verði virt.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, segir að nemendur 3., 4. og 5. bekkjar í Lauganesskóla verði jafnframt sendir í skimun og verið sé að vinna hörðum höndum að fá sem skýrastu mynd af stöðunni sem upp er komin.

Niðurstöður sýna úr starfsfólki skólans voru allar neikvæðar og því hefur aðeins einn kennari greinst smitaður enn sem komið er.

Alls greindist 21 smit í gær, þar af 17 innanlands og voru 14 af þeim í sóttkví. Fjögur smit greindust við landamæri.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðaði í morgun til aukafundar vegna stöðunnar á faraldrinum en hætt var við fund­inn um hálfri klukku­stund eft­ir að hann var boðaður.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur að tími sé kominn til að herða verulega á aðgerðum til að hefta útbreiðslu faraldursins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert