Engar æfingar grunnskólabarna hjá Þrótti

Ljósmynd/Facebook-síða Þróttar

Allir nemendur Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla í Laugardalnum eru kominir í úrvinnslusóttkví vegna Covid-19-smita í þeim fyrrnefnda. Allt íþróttastarf grunnskólabarna liggur niðri hjá Þrótti. Ákveðið var að grípa til þessara úrræða seint í gærkvöldi vegna fjölgunar smita í nemendahópi Laugarnesskóla. Frístundaheimilið verður lokað sem og félagsmiðstöðin og starf skólahljómsveitar Austurbæjar.

Þetta þýðir að allir nemendur í þessum skólum verða að vera heima í sóttkví þangað til frekari ákvörðun hefur verið tekin.

Nemendur Laugarlækjarskóla eru í 8.-10. bekk.
Nemendur Laugarlækjarskóla eru í 8.-10. bekk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Í dag kemur betur í ljós hvað margir af þeim sem nú þegar eru komnir í úrvinnslusóttkví halda áfram í sóttkví. Ljóst er þó nú þegar að 6. bekkur í Laugarnesskóla er kominn í sóttkví sem endar með sýnatöku á laugardaginn, sama á við um 5. flokk karla í knattspyrnu í Þrótti.

Tilkynning var send á foreldra og forráðamenn allra barna í þessum hópum í gærkvöldi og rakningin hefur verið unnin í góðri samvinnu við skólastjórnendur Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla, skólasvið Reykjavíkurborgar, Þrótt og almannavarnadeild höfuðborgarsvæðisins að því er segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert