Fólk íhugi að fresta fermingum

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Agnes M. Sigurðardóttir biskup hvetur starfsfólk þjóðkirkjunnar og sóknarnefndir til að ræða þann kost við fermingarbörn og fjölskyldur þeirra að fresta fermingum vegna nýrra samkomutakmarkana.

Einnig bendir hún á að mögulegt sé að fjölga fermingarathöfnum næstu vikur þannig að færri verði viðstaddir hverja messu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni. Í eðlilegu árferði væri fermingarvertíðin á næsta leiti, en vegna faraldursins hafa margar kirkjur þegar boðið upp á fermingar fram á sumar.

Tíu manna samkomubann tekur gildi í landinu á miðnætti, en þó verður 30 manns heimilt að sækja messur og aðra viðburði á vegum trú- og lífsskoðunarfélaga.

Í bréfi biskups til presta og annarra starfsmanna kirkna eru nýjar reglur tíundaðar og brýnt fyrir starfsfólki að gæta að sóttvörnum, svo sem að tryggja að sprittbrúsar séu aðgengilegir við inn- og útganga kirkna, fólk takist ekki í hendur og snertifletir séu sótthreinsaðir milli athafna.

Þá segir enn fremur að altarisgöngur falli niður næstu vikur en að hugað verði að því að þær geti farið fram með börnum og fjölskyldum þeirra þegar aðstæður leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert