Gas leggur yfir útsýnisstað

Eldgosið í Geldingsdal í gær.
Eldgosið í Geldingsdal í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allar líkur eru á að vindurinn muni blása gasmengun úr eldgosinu yfir norðausturhlíð dalsins þar sem virkni litla gígsins, sem hefur sótt í sig veðrið undanfarið, sést best. 

Á gossvæðinu í Geldingadal spáir suðvestanátt og um 5-10 m/s í dag er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Greint hefur verið frá því að Lög­reglu­stjór­inn á Suður­nesj­um hef­ur ákveðið að opna aðgengi að gosstöðvun­um. 

Að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er heldur meiri vindur í dag en í gær. „Það ætti ekki að vera mikil uppsöfnun á gasi ofan í lægðinni. En mun hins vegar blása undan vindi yfir hlíðarnar norðaustanmegin við hraunið.“

Hann segir gas ávallt hættulegt undan vindi en minni líkur á uppsöfnunin þegar það er vindur. „En gasið er náttúrulega alltaf til staðar og blæs eitthvert.“

Fjöldi fólks vildi berja rennandi hraunið augum í gær.
Fjöldi fólks vildi berja rennandi hraunið augum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gasgrímur eru illfáanlegar um þessar mundir og voru fæstir búnir þeim á gosstað í gær. Spurður hvort það sé áhyggjuefni segir Eiríkur Örn að ástæða sé til að fólk sýni aðgát. 

Hann tekur undir að norðausturhlíð dalsins sé ekki góður staður til að vera á í dag. „Það sést skýrt á vefmyndavélum að gasið leggur beint þar yfir. Það er alltaf hætta á gasmengun þó að það sé blástur.“

Hættulegu gösin eru lyktarlaus

Lyktin af brennisteinstvíoxíði (SO2) er auðfundin að sögn Eiríks Arnar. „En þú finnur ekki lykt af kolmónoxíði og koltvíoxíðinu. Það er að koma upp líka, það er þungt og situr sérstaklega í lægðum og þú finnur ekki lykt af því.“

„Það er ekki hægt að treysta á að maður finni lyktina áður en maður missir súrefnið.“

Besta útsýnið yfir minni virka gíginn er í norðausturhlíð dalsins. …
Besta útsýnið yfir minni virka gíginn er í norðausturhlíð dalsins. Gas leggur yfir hana í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert