Pléiades-gervihnattirnir, sem hringsóla umhverfis jörðina á vegum frönsku geimvísindastofnunarinnar CNES, hafa tekið ljósmyndir af gosstöðvunum í Geldingadölum til að fylgjast með framgangi jarðeldanna þar.
Unnin hafa verið hæðarkort út frá myndefninu og með samanburði við eldri kort hafa fengist upplýsingar um þykkt og rúmmál hraunsins, auk þess sem hraunflæði hefur verið að meta.
Nýjustu myndirnar voru teknar klukkan 13.20 í gær og sýna að hæð gígsins er um 20 metrar, mesta þykkt hraunsins er 22 metrar og meðalþykkt þess 9,5 metrar.
Rúmmál hraunsins er 1,8 milljón rúmmetra sem svarar til hraunflæðis upp á um það bil 5,7 rúmmetra á sekúndu, frá upphafi gossins.
Sama meðalhraunflæði fæst fyrir tímabilið frá 22. mars kl. 13.15 til 23. mars kl. 13.20.