Úrræði ríkisstjórnarinnar vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins eru mörg hver enn í gildi og verða framlengd vegna fjórðu bylgjunnar sem er líklega hafin hér á landi.
Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á blaðamannafundi í Hörpu.
Bjarni sagði það mjög miður að þurfa grípa til hertra aðgerða en það væri samt sem áður samdóma álit allra sérfræðinga, sem og reynsla Íslendinga af faraldrinum hingað til, að betra sé að stíga snemma inn í og afstýra frekari útbreiðslu faraldursins heldur en að sitja síðar uppi með meira íþyngjandi aðgerðir.
„Þannig erum við að vonast til þess að með því að stíga af krafti inn í stöðuna sem við okkur blasir þá séum við að ná þessum markmiðum sem hafa alltaf verið leiðandi hjá okkur, að verja bæði líf og heilsu fólks og lágmarka efnahagslegan skaða,“ sagði Bjarni og sagðist meðvitaður um að ýmsir rekstraraðilar myndu finna fyrir hertum sóttvarnaaðgerðum.
Hann minnti á að í gildi væru lög um lokunarstyrki fyrir þá sem þurfa að loka starfsemi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Lögin gildi út júnímánuð og unnið sé að framlengingu þess úrræðis. Enginn þurfi að velkjast í vafa um að þeir styrkir verði til staðar komi til frekari lokana.
Sama gildir um viðspyrnustyrki sem einnig eru enn í gildi og eru greiddir út mánaðarlega. Þeir gilda út maí en unnið er að framlengingu. Þeir sem verða fyrir verulega tekjufalli geti sótt um það úrræði.
Þá verður boðið upp á að framlengja greiðslufresti vegna stuðningslána frá síðasta ári, hægt verður að dreifa gjalddögum skattgreiðslna yfir tveggja ára tímabil og hlutabætur eru enn í boði. Áfram verður hægt að sækja um greiðslu launa í sóttkví.