Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að opna aðgengi að gosstöðvunum í Geldingadölum. Veðurskilyrði fara batnandi og Veðurstofa Íslands hefur komið upp veðurstöð við Geldingadali til þess að fylgjast með veðri í rauntíma. Þá er verið að vinna að því að efla rauntímamælingar á gasi við hraunjaðra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
Telur lögreglustjórinn að með þessu áætlunum sé ásættanlegt að halda svæðinu opnu á næstu dögum og vikum, en viðvaranir verði sendar út ef loftgæði versna eða veðurspá er óhagstæð.
Hætta á að gas safnist fyrir í lægðum er alltaf fyrir hendi og því er óráðlegt að fara um þær við hraunjaðra og best að halda sig í hlíðum ofan Geldingadals.
Að auki er vakin athygli á því að smitum vegna COVID hefur farið fjölgandi og því er ferðafólk hvatt til ýtrustu varkárni og viðhafa persónulegar sóttvarnir.