Rót smitsins enn óþekkt

Nemendur fóru í skimun í gær og einhverjir fara í …
Nemendur fóru í skimun í gær og einhverjir fara í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Rót smitsins í Laugarnesskóla er enn óþekkt en bæði kennari og nemendur í skólanum hafa greinst með Covid-19. Fleiri smit greindust innan skólans í gær og segir Helgi Grímsson,  sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, allt gert til að stöðva smitið. 

Ákveðið var í gærkvöldi að setja alla nemendur Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla í úrvinnslusóttkví en eitthvað af nemendunum voru þegar í sóttkví. Eins eru allir þeir sem æfa með fimmta flokki karla í knattspyrnu í Þrótti í sóttkví og þeir koma úr fleiri skólum í hverfinu. Engar íþróttaæfingar eru hjá Þrótti í dag fyrir grunnskólanemendur.

Að sögn Helga komu í ljós fleiri smit innan Laugarnesskóla í gær og því var þessi ákvörðun tekin. Búið var að setja lungann af nemendum sjötta bekkjar í Laugarnesskóla í sóttkví strax á sunnudagskvöld og í framhaldinu þá sem voru á æfingu með þeim sem er smitaður í fimmta flokki hjá Þrótti segir Helgi en það smit kom í ljós á mánudagskvöld. 

Kennari í Laugarnesskóla greindist með Covid-19 á sunnudag en hann hafi ekki verið við störf í skól­an­um síðan á þriðju­dag í síðustu viku, það er fimm dög­um áður en hann grein­ist með smit.

Helgi segir að þegar þessi aukning smita kemur í ljós hafi legið fyrir að rakningarteymið þyrfti meira svigrúm til að rekja betur því það eru vina- og fjölskyldutengsl milli skólanna tveggja. 

Helgi segir að vonandi hafi allir náð að halda sóttkví vel „en til þess að taka af allan vafa og til þess að fá glögga mynd af stöðunni og hefta mögulega útbreiðslu var gripið til þess ráðs að setja alla nemendur Laugarness- og Laugarlækjarskóla í sóttkví,“ segir Helgi en skólarnir eru tvenndarskólar, það er nemendur fara í sjöunda bekk í Laugarlækjarskóla eftir að hafa stundað nám fyrstu sex skólaárin í Laugarnesskóla. 

Stjórnendur Langholts- og Vogaskóla upplýstir um stöðuna

Að sögn Helga hafa stjórnendur Langholtsskóla og Vogaskóla verið upplýstir um stöðuna og þeir eru á mjög á vaktinni en nemendur í þessum skólum æfa einnig með Þrótti. Nemendur í þessum skólum sem voru á æfingunni sem um ræðir eru komnir í sóttkví.

„Af því að það er ekkert smit staðfest úr öðrum nemendahópi en Laugarnesskóla þá settum við ekki á úrvinnslusóttkví í þessum skólum enda engin rakning í gangi þar,“ segir Helgi. 

Spurður út í smit í áttunda bekk Norðlingaskóla segir Helgi að hann hafi ekki heyrt að það hafi breitt úr sér. 

„Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni og mikið kappsmál að loka þetta af áður en fólk fer í páskafrí. Við erum mjög ánægð með að þessi ákvörðun var tekin til að hefta þessa útbreiðslu. Þetta er óvenjulegt miðað við fyrri bylgjur að þetta skuli koma í svona marga nemendur og svona hratt,“ segir Helgi. „Ekki er víst að smitið komi frá kennaranum og ekki vitað hvaðan þessi rót kemur. Nemendur voru saman í skólanum miðvikudag, fimmtudag og föstudag og það er ekki búið að rekja þetta til neins upphafs,“ segir Helgi.

„Aðalmálið er að gera allt sem við getum til að hefta þessa útbreiðslu,“ segir Helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert