Sagði ríkisstjórnina hafa „skitið upp á bak“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði undir dagskrárliðnum störf þingsins að ríkisstjórnin hafi „skitið upp á bak“ þegar kemur að viðbrögðum við kórónuveirunni og að tími væri kominn til að „skella öllu í lás“ hér á landi.

„Klúður ríkisstjórnarinnar vegna breska afbrigðis veirunnar er komið í ljós. Því miður hefur ríkisstjórnin skitið upp á bak í Covid-málinu og það bæði í bóluefnamálinu og þá sérstaklega í vörninni gegn veirunni á landamærunum,“ sagði Guðmundur Ingi.

Hann benti á að 17 hafi greinst í gær, sem er það mesta síðan um mánaðamótin nóvember/desember. Bætti hann við að landamærin „mígleki“ líkt og þau hafi gert lengi.

Rauður dregill fyrir brasilísku veiruna?

Hann hvatti ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða hið snarasta og sagði að vinnubrögð hennar í Covid-málum hafi engan hátt verið boðleg síðan ný sóttvarnalög voru samþykkt. „Hún hefur brugðist þjóðinni með því að nota ekki þau nýju úrræði sem boðið er upp á,“ sagði hann og minntist á veiruna sem grasserar á meðal skipverja á Austfjörðum og spurði hvort rauður dregill yrði dreginn út fyrir brasilísku veiruna þar.

Hann minntist einnig á varúðarorð Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, þar sem hún talaði fyrir lokun landamæranna. „Miðað við stöðuna í dag þá höfðum við í Flokki fólksins rétt fyrir okkur allan tímann.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alvarlegar athugasemdir við orðfærið

Hann sagði ríkisstjórnina hafa sleppt lausri fjórðu bylgju faraldursins og að tími væri kominn til að skella öllu í lás og samkomutakmarkanir teknar upp eins og þær voru verstar í vetur.

Að ræðunni lokinni gerði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, alvarlegar athugasemdir við orðfærið sem Guðmundur Ingi notaði í ræðunni.  „Forseti hvetur þingmann til að koma sjónarmiðum á framfæri með orðbragði sem er húsum hæft,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert