Leikskólakennarar eru ósáttir við það tillitsleysi sem þeir segja að stéttinni hafi verið sýnt í kórónuveirufaraldrinum.
Á sama tíma og skólum á öðrum skólastigum er lokað vegna faraldursins eru leikskólar opnir með óbreyttum hætti og starfsfólk og nemendur berskjölduð fyrir smiti án þess að starfsfólk sé sérlega framarlega í forgangsröð bólusetninga. Tveir leikskólakennarar sem mbl.is hefur rætt við segja hertar samkomutakmarkanir sem kynntar voru á miðvikudag hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Önnur þeirra hefur sagt upp störfum.
Öllum skólum nema leikskólum hefur verið lokað til að hægja á útbreiðslu veirunnar, en Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er meðal þeirra sem hefur talað fyrir því að lokunin nái einnig til leikskóla.
Lára Ágústsdóttir leikskólakennari segir í samtali við mbl.is að leikskólakennarar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, séu uggandi yfir stöðunni. „Það er ekki í boði í okkar starfi að halda tveggja metra reglu. Við þurfum að standa vaktina og vera í samskiptum við börn og foreldra,“ segir hún og veltir því jafnframt fyrir sér hvort leikskólakennarar eigi skilið að vera ofar í forgangsröð bólusetninga. Starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum er allt í forgangshópi 8, þeim næstsíðasta.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, að erfitt sé að sjá skynsemina í því að loka ekki leikskólum þann stutta tíma sem er fram að páskum.
„Þessi veira hefur alveg sýnt að hún er óútreiknanleg með hvar hún slær niður, þá vaknar sú spurning hvort verið sé að taka óþarfa áhættu með að halda leikskólum opnum,“ segir Haraldur.
Kennarasambandið hafi kallað eftir því að forgangshópar í leikskóla verði skilgreindir með skýrum hætti svo að framlínustarfsfólk geti sinnt starfi sínu og fengið pláss fyrir börn sín á leikskóla á meðan. Því hafi ekki verið sinnt.
Þórhildur Sif Þórmundsdóttir hefur starfað á leikskóla í Reykjanesbæ undanfarin ár en hún er að ljúka námi í leikskólakennarafræðum og yrði þar með einn tveggja faglærðra starfsmanna við skólann. Þórdís hefur fengið sig fullsadda og sagði í gær upp starfinu.
Hún segir greinarmuninn sem gerður er á leik- og grunnskólum hafa komið skýrt í ljós í faraldrinum, en samanburðurinn blasir við á hverjum degi þar sem leikskólinn sem hún vinnur á er rekinn í sama húsi og grunnskóli.
Þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir fyrir um ári var starfsemi grunnskóla takmörkuð að miklu leyti. Slíkt átti líka að gilda um leikskóla, ef frá eru talin börn svokallaðra framlínustarfsmanna. Þórhildur segir hins vegar að brátt hafi nær allir foreldrar verið komnir með einhverja undanþágu og skólahald með kunnuglegu sniði.
„Ef heimsendir væri boðaður annað kvöld þá yrðu leikskólar samt opnir til klukkan 14,“ segir Þórhildur.
Ár er síðan leyfisbréf kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum voru sameinuð en síðan þá hafa kennarar getað starfað þvert á þessi skólastig óháð því hvaða leyfisbréf þeir fengu upprunalega.
Síðan þá hefur fjöldi leikskólakennara streymt yfir í grunnskóla eða um 300 talsins. Á móti hafa um 30 fært sig úr grunnskólum í leikskóla. „Þetta er ekkert leyndarmál og við höfum séð þennan flótta lengi. En eftir að leikskólakennarar öðluðust réttinn til að nota heiti grunnskólakennara [í stað þess að flokkast sem leiðbeinendur í grunnskóla] þá hefur þetta færst í aukana,“ segir Þórhildur.
Þær Lára eru báðar sammála um að eitt leyfisbréf þvert á skólastig sé af hinu góða, en að flóttinn frá leik- yfir í grunnskóla sé birtingarmynd þess hvernig aðbúnaður sé ólíkur á þessum tveimur skólastigum. Metnað og virðingu skorti fyrir þessu fyrsta skólastigi.