Samkeppniseftirlitið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem farið er yfir þau skilyrði sem stofnunin setti fyrir sameiningu N1 og Festar árið 2018 og ákvarðanir stofnunarinnar réttlættar.
Meðal þeirra skilyrða sem sett voru fyrir sameiningunni var að hið sameinaða félag seldi verslun sína á Hellu, sem rekin var undir merkjum Kjarvals auk bensínstöðva Dælunnar. Samkomulagið hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu ekki síst vegna erfiðleika fyrirtækisins með að uppfylla skilyrði um sölu verslana á Suðurlandi.
Í yfirlýsingunni Samkeppniseftirlitsins er reynt að svara þeirra spurningu hvers vegna skilyrðin um sölu verslana á Suðurlandi voru sett. Segir þar að Samkeppniseftirlitið hafi ráðist í neytendakönnun meðal viðskiptavina N1 og Festar á Hellu og Hvolsvelli og niðurstöður hennar sýnt að N1 og Festi væru nánir keppinautar á þessu svæði. Því myndi samkeppni á svæðinu minnka við sameiningu og gæti það leitt til hærra vöruverðs, minna úrvals, skemmri opnunartíma og verri þjónustu. Því hafi Samkeppniseftirlitið brugðist við.
Bent er á að fyrirtækin hafi lagt til þau skilyrði sem sett voru fyrir samrunanum og samruninn verið samþykktur á þeim forsendum.
Sala Festar á verslun á Suðurlandi hefur ekki náð fram að ganga en félagið hefur ekki getað framleigt húsnæði sem það er með á leigu á Hellu eins og vonir stóðu til. Má skilja af yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins að félögin hefðu átt að tryggja sér heimild til þess áður en sameiningin gekk í gegn, svo ljóst væri fyrir fram að fyrirtækin gætu uppfyllt skilyrðin.