„Í mínum huga er stutt í vatnaskil í þessari baráttu,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við blaðamann mbl.is rétt eftir að blaðamannafundinum í Hörpu lauk í dag.
Þar kynnti ríkisstjórnin hertar samkomutakmarkanir sem gilda frá miðnætti. Bjarni segir ráðamenn hafa lengi staðið í undirbúningi fyrir aðgerðir ef kórónuveirufaraldurinn færi að geisa á ný hér á landi.
„Við höfum fylgst mjög náið með stöðunni á hverjum einasta degi, og maður gerði alltaf ráð fyrir því að það kæmi bakslag,“ segir Bjarni.
„En þegar við horfum til baka og lítum til fyrsta ársfjórðungs þessa árs höfum við í sjálfu sér notið mjög góðs af fyrri aðgerðum. Við höfum náð að gera tilslakanir sem hafa opnað á frelsi hér á Íslandi sem er langt umfram það sem aðrar þjóðir búa við í okkar heimshluta.“
Þá segir hann að bólusetningaráætlunin lofi góðu.
„Við skulum líka hafa það hugfast að á næsta ársfjórðungi er ætlunin að koma bóluefni út, og það munar verulega um það. Það gengur t.d. vel víða í nágranna- og viðskiptalöndum okkar að bólusetja, þó maður vilji svo sem alltaf sjá það gerast hraðar.“
En hvers vegna er gripið til svo harðra aðgerða með svo skömmum fyrirvara?
„Það er einfaldlega vegna þess að við sjáum vísbendingar um smit utan sóttkvíar. Ef vel tekst til núna með því að grípa strax inn í vonum við auðvitað að þessar aðgerðir þurfi jafnvel ekki að gilda nema í þrjár vikur,“ segir hann
„Það væri auðvitað besta mögulega niðurstaðan.“