„Við höfum aflýst árhátíðinni sem átti að vera hér á eftir,“ segir Hreiðar Sigtryggsson, skólastjóri Langholtsskóla, í samtali við mbl.is um árshátíð nemenda á unglingastigi sem hefur verið í undirbúningi lengi.
Ákvörðunin um þetta var tekin vegna fyrirmæla frá skólayfirvöldum og í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að setja á tíu manna samkomutakmarkanir frá og með miðnætti.
Ekkert smit hefur greinst í Langholtsskóla í fjórðu bylgju faraldursins en að minnsta kosti tólf nemendur í nágrannaskólans í Lauganesi hafa greinst með veiruna. Hreiðar vonast til þess að sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi á miðnætti nái að kveða bylgjuna í kútinn.
Í ljósi þess að engin smit hafa komið upp og að nemendur á unglingastigi eru í annarri álmu en aðrir nemendur skólans stóð til að halda dagskránni til streitu. Nú er hins vegar ljóst að árshátíðin fer ekki fram.
„Þetta er ákaflega dapurlegt því að börnin eru búin að leggja nótt við dag að undirbúa og eiga í rauninni bara eftir að skipta um föt. Það eru rosalega þung spor að tilkynna börnunum,“ bætir Hreiðar við.