Stíf fundahöld fara fram hjá teymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis í dag vegna stöðunnar á kórónuveirufaraldrinum, að sögn upplýsingafulltrúa Almannavarna. Upplýsingafundur vegna faraldursins sem hafði verið boðaður fyrr í dag var sleginn af um klukkan tíu.
17 smit greindust innanlands í gær. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir að staðan sé ekki góð.
„Auðvitað eru tölurnar ekki eins og við viljum hafa þær. Við erum ekkert á frábærum stað. Þess vegna eru fundahöld stíf,“ segir Hjördís.
Nokkur innanlandssmit greindust utan sóttkvíar á föstudag og um helgina. Þá greindist eitt smit á mánudag innan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að um samfélagslegt smit sé að ræða. Þá er útlit fyrir að rót smitanna sé enn óþekkt í einhverjum tilvikum.
Núverandi takmörkun á samkomum vegna farsóttar gildir til og með 9. apríl. Þórólfur hefur þó sagt að mögulega verði aðgerðir hertar ef þróun faraldursins er slæm.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur kallað eftir því að í ljósi stöðunnar verði „öllu“ lokað.