„Átti erfitt með að hemja mig“

Viktor náði ansi mögnuðu myndefni úr lofti af eldgosinu í …
Viktor náði ansi mögnuðu myndefni úr lofti af eldgosinu í Geldingadölum. Mynd/Viktor Aleksander Bogdanski

Það eru fáir staðir á Íslandi um þessar mundir sem hafa verið festir jafn rækilega á filmu og gossvæðið í Geldingadölum. Drónar hafa verið nýttir til hins ýtrasta og það var engin undantekning hjá Viktori Aleksander Bogdanski sem heimsótti svæðið í vikunni og náði ansi tilkomumiklu myndefni. Dróninn, sem var glænýr, bráðnaði eilítið í atlögu sinni við eldfjallið, en hann tórir enn. 

Viktor, sem er eigandi Blindspot sem sérhæfir sig í gerð auglýsinga og kynningaefnis, fór, ásamt tveimur öðrum, á gossvæðið síðdegis sl. þriðjudag, en þá var nýbúið að stika leiðina yfir í Geldingadali. Þetta er í fyrsta sinn sem hann stendur í návígi við eldgos sem hann lýsir sem magnaðri upplifun.

„Það var fullt af fólki og gott veður. Þetta var dálítið eins og þjóðhátíðarstemning. Við horfðum yfir allt, fólk var í dalnum, sat alveg við hraunið að hlýja sér þar. Fullt af drónum á lofti, þyrlur og flugvélar. Maður fann alveg drunurnar í jörðinni sem var alveg geggjað að upplifa,“ segir Viktor í samtali við blaðamann. 

Viktor Aleksander Bogdanski, eigandi Blindspot.
Viktor Aleksander Bogdanski, eigandi Blindspot. Ljósmynd/Aðsend

Gat ekki farið nær

Á þriðjudag var hins vegar tilgangurinn að mynda svæðið úr lofti. „Ég keypti dróna sama dag og tókst að bræða hann, að hluta, undir drónanum. Þannig að skynjararnir eru í raun ónýtir og svo einhverjar festingar sem losnuðu. Hann er virkur samt. Það eru bara nokkrir hlutir sem eru verr farnir,“ segir hann. Dróninn fór næst um einum metra frá kvikunni sem hafði flætt um dalinn með fyrrgreindum afleiðingum fyrir flygildið. 

Viktor og samferðamenn hans fóru sjálfir ansi nálægt hrauninu, en hann segir að þeir hafi staðið í um fimm metra fjarlægð frá því. „Ég gat ekki farið nær, það var bara það heitt.“

Aðspurður segir Viktor að hópurinn hafi verið vel búinn og verið m.a. með gasgrímur meðferðis. Hann segir ennfremur að lögreglan og félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafi verið áberandi á svæðinu og að þeir hafi verið duglegir að liðsinna þeim sem voru með spurningar eða vantaði ráðleggingar. 

Tökumenn á tæpasta vaði

Viktor segir að það hafi verið ansi knappur tími fyrir þá til að mynda svæðið því þegar þeir komu á staðinn, um kl. 16:20, hafi verið tilkynnt að það ætti að loka svæðinu kl. 17. „Þá voru enn 20 mínútur eftir af göngunni. Þannig að ég var orðinn ansi smeykur um að ná engu efni, þannig að við hlaupum af stað og erum alveg búnir á því. Stoppum og dritum og dritum, en svo virðist vera að það hafi verið mun meiri vindur en þeir [almannavarnir] áætluðu, geri ég ráð fyrir. Af því að þeir lokuðu svo ekki svæðinu fyrr en sjö.“

Í myndskeiðinu má meðal annars sjá tilkomumikið skot þegar það brotnar hluti af kvikuopinu sem fellur ofan í glóandi kvikuna. „Ég hef ekki séð neitt svona skot áður. Þegar ég var að taka þetta upp þá átti ég erfitt með að hemja mig; að hreyfa ekki puttana þegar ég var að stýra drónanum,“ segir Viktor sem stefnir á að heimsækja svæðið aftur fljótlega til að njóta upplifunarinnar enn betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka